Lögregla lokaði afhendingarstöðum tveggja áfengisnetverslana sem eru Nýja vínbúðin og Smáríkið á annan dag jóla á þeim forsendum að það væri einn af helgidögum þjóðkirkjunnar en samkvæmt reglugerð um smásölu og veitingar áfengis eiga útsölustaðir áfengis að vera lokaðir þá daga. „Ég tel að þetta hafi verið fyrir einhvern misskilning hjá lögreglunni. Nýja vínbúðin er erlend netverslun, þetta er afhendingarstaður en ekki smásala,“ segir Sverrir Einar Eiríksson einn af eigendum Nýju Vínbúðarinnar. Afhverju heldurðu að lögregla hafi misskilið lögin? „Það er góð spurning. Ég kann ekki að svara því.“ Segjast vera afhendingarstaður, ekki smásala Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem lögregla hefur afskipti af Nýju vínbúðinni á annan dag jóla, það gerðist líka í fyrra af sömu ástæðum en þá var afhendingarstaðnum ekki lokað. „Við héldum eðlilega að þetta væri einhver misskilningur og vorum ekki að hugsa um þetta í ár,“ segir Sverrir. Annar dagur jóla er einn af helgidögum þjóðkirkjunnar og smásala á áfengi er bönnuð þann daginn. Ættuð þið sem eigendur þessa fyrirtækis ekki að vita þetta? „Þetta er ekki smásala, þetta er erlend netverslun og við erum afhendingarstaður.“ Þegar málið kom upp á 2. í jólum var haft eftir talsmanni lögreglu að Nýja vínbúðin og Smáríkið yrðu sektuð fyrir athæfið. Sverrir segir ólíklegt að af því verði. „Ég efast um að okkur verði gerð sekt,“ segir hann. Annar helgidagur þjóðkirkjunnar er á næstunni sem er nýársdagur. Spurður hvort Nýja vínbúðin verði opin þann dag segir Sverrir að eigendurnir muni ráðfæra sig við lögmenn sína og ráða síðan ráðum sínum. En finnst þér það líklegt? „Já, mér finnst það mjög líklegt.“