Flugeldasala hafin aftur í Grindavík

Flugeldasala Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hófst í dag víðs vegar um land og eru útsölustaðir um 100 talsins. Sala á flugeldum hefur verið ein mikilvægasta fjáröflun björgunarsveitanna í áraraðir og stendur undir allt að 80 prósentum af rekstrarkostnaði sveitanna. Hjá björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík er dagurinn stór þar sem sala á flugeldum hefur ekki farið þar fram síðan um áramótin 2022. Sigrún Þuríður Runólfsdóttir fréttamaður heimsótti meðlimi Þorbjarnar í Grindavík og tók stöðuna á flugeldasölunni. Þar var nokkuð um fráflutta Grindvíkinga sem þangað voru komnir til að styrkja sína björgunarsveit. Bogi Adolfsson, formaður Þorbjarnar, segir Grindvíkinga vera sprengjuglaða um áramótin. „Það er gaman að hitta fólkið úr samfélaginu og geta selt því flugelda aftur,“ segir hann.