Bjartsýni um frið að loknum fundi forsetanna en endalok stríðsins ekki alveg í augsýn

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir frið í Úkraínu nær en nokkru sinni fyrr. Málið sé þó ekki leyst, enn séu þó nokkrar vikur í að niðurstaða samningaviðræðna liggi fyrir. Þá gæti stríðinu lokið. Ef ekki þá haldi Rússar og Úkraínumenn áfram að drepa hvern annan. „Ef viðræður ganga reglulega vel tekur þetta nokkrar vikur, lengur ef verr gengur,“ sagði Trump á sameiginlegum blaðamannafundi hans og Volodymyrs Zelensky Úkraínuforseta í Mar-a-Lago. Þríhliða fundur þeirra með Vladimír Pútín Rússlandsforseta gæti orðið að raunveruleika. Trump sagði Pútín hafa lýst vilja til þess í löngu símtali þeirra fyrr í dag. Löngum fundi þeirra Trumps og Zelenskys um nýjustu samningadrögin að friði í innrásarstríði Rússa lauk á tíunda tímanum í kvöld. Donald Trump segir mikinn árangur hafa náðst í samtali þeirra og Zelensky sagði þá hafa rætt alla þætti samningsdraganna, sem séu níutíu prósent samþykktir en að Bandaríkin muni algerlega tryggja öryggi Úkraínu. Öryggistryggingar séu lykilatriði sem áfram verði unnið að. Eins hafi forsetarnir átt uppibyggilegan fjarfund með leiðtogum Frakklands, Finnlands, Póllands, Noregs, Ítalíu, Bretlands og Þýskalands auk framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Trump sagði frekari fundi með þeim ekki útilokaða en Zelensky sagði fundi fyrirhugaða með þeim í janúar. Trump sagðist reiðubúinn að heimsækja Úkraínu og ávarpa þingið yrði það til að liðka fyrir stríðslokum. Hann sagði brýnast að bjarga mannslífum, rússneskum jafnt sem úkraínskum.