Hútar líta á alla viðveru Ísraela í Sómalílandi sem hernaðarlegt skotmark

Abdulmalik al-Houthi, leiðtogi uppreisnarsveita Húta í Jemen, segjast meta alla mögulega viðveru Ísraela í Sómalílandi sem hernaðarlegt skotmark. Í yfirlýsingu kveðst al-Houthi líta á slíkt sem ögrunartilburði Ísraela gegn Sómalíu og Jemen ásamt því að ógna öryggi ríkja beggja vegna Rauðahafs og á hafinu sjálfu. Ísraelsk stjórnvöld tilkynntu á föstudag um viðurkenningu á fullveldi Sómalílands, sem sagði sig úr lögum við Sómalíu 1991. Síðan þá hafa ríkisstjórnir Sómalílands árangurslaust sóst eftir viðurkenningu alþjóðasamfélagsins, þar til nú. Sérfræðingar í málefnum svæðisins telja að nánari samskipti við Sómalíland gætu veitt Ísraelum betri aðgang að Rauðahafi og auðveldað árásir þeirra á Húta í Jemen. Sómalíland hefur hernaðarlega mikilvæga stöðu við Adenflóa og heldur úti eigin her, gefur út vegabréf og eigin gjaldmiðil. Hútar, studdir af Írönum, hófu árásir á Ísrael til stuðnings Hamas strax eftir að styrjöldin á Gaza braust út, sem Ísraelar svöruðu af hörku. Hútar hafa haldið að sér höndum eftir að viðkvæmt vopnahlé komst á í október. Sómalíland hefur verið nokkuð einangrað á alþjóðasviðinu þótt þar ríki meiri stöðugleiki en í Sómalíu sem þarf að þola ítrekaðar árásir íslamistasveitanna Al-Shabaab á höfuðborgina Mogadishu. Viðurkenning Ísraela á Sómalílandi hefur verið harðlega gagnrýnd af Afríkusambandinu, Egyptum, Tyrkjum og ýmsum samtökum múslímaríkja. Evrópusambandið krafðist þess að fullveldisréttur Sómalíu skyldi virtur.