Fjölskyldur þeirra myrtu á Bondi-strönd krefjast óháðrar rannsóknar á vexti gyðingahaturs

Sautján fjölskyldur þeirra sem Akram-feðgarnir myrtu á Bondi-ströndinni í Ástralíu hvetja forsætisráðherrann Anthony Albanese til að stofna óháða konunglega rannsóknarnefnd til að komast að því hvað olli hröðum vexti gyðingahaturs í landinu. Varað er við að fleiri mannslíf geti glatast verði ekki gripið til aðgerða. „Við þurfum að vita hvers vegna augljós viðvörunarmerki voru hunsuð, hvernig gyðingahatur og íslömsk öfgahyggja hefur fengið að vaxa og dafna athugasemdalaust,“ segir í bréfi fjölskyldnanna til Albanese. Þær vilja einnig fá að vita hvaða breytingar standi til að gera til að vernda alla Ástrali. Feðgarnir Sajid og Naveed Akram myrtu fimmtán og særðu tugi á ljósahátíð 14. desember og yfirvöld líta á árásina sem hryðjuverkaárás knúna áfram af gyðingahatri. Fjölskyldurnar segja ekki nóg að breyta lögum um skotvopnaeign og hatursorðræðu. „Við misstum foreldra, maka, börn, afa og ömmur. Ástvinir okkar ætluðu að njóta ljósahátíðarinnar á Bondi-ströndinni, þar sem allt átti að vera öruggt. Þú skuldar okkur svör, þú þarft að bera ábyrgð og þú skuldar Áströlum sannleikann,“ segir í bréfinu. Fólkið segir Albanese þurfa að sýna leiðtogahæfileika og grípa til skjótra aðgerða. „Þú getur ekki fært okkur ástvini okkar aftur, en ítarleg rannsókn og viðbrögð geta bjargað lífi margra annarra.“ Fjölskyldurnar segja gyðingahatur þjóðarógn, sem ekki væri á förum. Rannsaka þurfi hvað hafi farið úrskeiðis hjá lögreglu, leyniþjónustu og í stefnumótun stjórnvalda sem leiddi til fjöldamorðsins. „Við krefjumst svara og við krefjumst lausna,“ segir í bréfinu. Albanese hefur hingað til ekki sagst vilja stofna allsherjarrannsóknarnefnd, nær væri að grípa umsvifalaust til aðgerða og forðast tafir og sundrungu. Hann hét í liðinni viku fullum stuðningi við rannsókn sem hafin er í Nýju Suður-Wales, þar sem árásin var gerð. Hún yrði að duga. Lögreglumenn skutu föðurinn Sajid Akram til bana en sonurinn Naveed er í gæsluvarðhaldi. Hann hefur ekki enn tjáð sig um sakarefnin sem eru meðal annars fimmtán morð, hryðjuverk og sprengjutilræði.