Kínverski herinn með umfangsmikla heræfingu nærri Taívan

Kínverjar boða að umfangsmiklar heræfingar hefjist í dag í lofti og á legi við Taívan. Í tilkynningu hersins segir að landher, sjóher og flugher taki fullan þátt í æfingunni ásamt eldflaugasveitum. Æfingin gengur undir heitinu Réttlætisaðgerðin 2025. Í yfirlýsingu segir jafnframt að æfingin sé haldin til að vara taívanska sjálfstæðissinna harkalega við öllum tilburðum í þá átt. Stjórnvöld í Taívan fordæma æfinguna sem þau segja vanvirða öll alþjóðleg viðmið og reglur um hernaðarógn gagnvart nágrannaríkum. Kínverjar segja æfinguna lögmæta og nauðsynlega til að vernda fullveldi og einingu innan Kína. Á morgun, þriðjudag, verður raunverulegum skotvopnum beitt við æfingar á fimm svæðum á hafi og í lofti nærri Taívan. „Í öryggisskyni skulu öll skip og flugför sem ekki eiga brýnt erindi halda sig fjarri þeim svæðum,“ segir í tilkynningu hersins. Kínverjar líta á sjálfstjórnarríkið sem óaðskiljanlegan hluta alþýðulýðveldisins sem verði endurheimt, jafnvel með valdi. Mjög stirt hefur einnig verið milli Kínverja og Japana eftir að forsætisráðherrann Sanae Takaichi sagði í þingræðu að Japansher gripi til vopna yrði lagt til atlögu að Taívan. Stjórnvöld í Beijing brugðust einnig ókvæða við umfangsmikilli vopnasölu Bandaríkjanna til Taívan. Í seinustu viku ákváðu stjórnvöld að beita 20 bandarísk vopnaframleiðslufyrirtæki refsiaðgerðum.