Vetëvendosje, vinstrisinnaður þjóðernisflokkur Albins Kurti, forsætisráðherra Kósovó, hafði sigur í nýafstöðnum þingkosningum með rétt tæpan helming atkvæða. Albin Kurti í hópi stuðningsfólks Vetëvendosje.EPA / Georgi Licovski Yfirkjörstjórn landsins tilkynnti þetta í nótt. Þarlendir miðlar segja að þótt Kurti hafi ekki tryggt sér meirihluta í 120 manna þinginu sé líklegt að flokkar minnihlutahópa veiti honum nægan stuðning til myndunar ríkisstjórnar. Kósovó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008 en þar búa enn margir Serbar sem ekki viðurkenna ríkisstjórnina í Pristína. Serbía hefur ekki enn viðurkennt sjálfstæði Kósovó. Mikil úlfúð hefur ríkt milli landanna allt frá lokum Kósóvó-stríðsins 1999.