Samherjar Úkraínu ætla að hittast í París snemma í janúar til að ræða hvað hvert ríkjanna er tilbúið að leggja til öryggistrygginga fyrir landið, sem yrðu hluti friðarsamkomulags við Rússa. Emmanuel Macron Frakklandsforseti greindi frá þessu á X í nótt eftir að hann og fleiri leiðtogar Evrópuríkja ræddu símleiðis við Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta og Donald Trump Bandaríkjaforseta. Forsetarnir sögðu að loknum fundi sínum í gærkvöld að friður í innrásarstríði Rússa í Úkraínu gæti verið innan seilingar, jafnvel á næstu vikum, en erfiðar samningaviðræður væru fram undan. Enn væri ósamið við Rússa um landsvæði og stöðu víglínunnar. Rússar hafa krafist þess að Úkraínumenn gefi eftir landsvæði, sem þeir hafa þvertekið fyrir að gera. „Þetta er erfitt og óleyst en við nálgumst niðurstöðu,“ sagði Trump. Rússar hafa engan veginn gefið nokkrar málamiðlanir í skyn. Zelensky sagði brýnast að öryggi Úkraínu yrði tryggt til framtíðar. Trump hafði eftir Vladimír Pútín, sem hann ræddi við símleiðis fyrr um daginn, að honum væri alvara með að koma á friði, þrátt fyrir þungar árásir á Úkraínu undanfarna daga. „Allir vilja að þessu ljúki,“ sagði Trump. Zelensky boðaði að hann þingaði með Trump auk leiðtoga Evrópuríkja í janúar. Zelensky virtist mjög í mun að ergja Trump ekki, sennilega minnugur fundarins 28. febrúar þar sem þeir JD Vance varaforseti létu skömmum rigna yfir hann. Hann lyfti þó brúnum þegar Trump sagði Pútín hafa óskað Úkraínu velgengni. „Pútín forseti lýsti miklu göfuglyndi gagnvart Úkraínu með því að bjóða fram orku, rafmagn og aðrar vörur gegn mjög vægu verði,“ sagði Trump. Zelensky kinkaði einnig kolli kurteislega þegar Trump sagði gesti sína greinilega hafa notið miðdegisverðarins í Mar-a-Lago og hélt ró sinni meðan gestgjafinn hellti kunnuglega úr skálum reiði sinnar yfir forverann Joe Biden.