Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels er væntanlegur til fundar við Donald Trump Bandaríkjaforseta í dag þar sem næsta stig vopnahlésins á Gaza verður til umræðu. Þeim síðarnefnda er mjög umhugað um að það verði fært á næsta stig. Trump segir Netanjahú hafa beðið um fundinn sem hefst klukkan átján að íslenskum tíma á Mar-a-Lago, setri hans í Flórída. Trump þykir brýnt að tilkynna eigi síðar en í janúar að sérfræðingastjórn, sem hann nefnir friðarráð, taki við stjórninni á Gaza tímabundið og myndun alþjóðlegs herliðs til að halda þar uppi lögum og reglu. Það yrði í takti við annan áfanga vopnahléssamkomulagsins. Vefritið Axios segir Trump vilja stýra fyrsta fundi friðarráðsins á Davos-ráðstefnunni í Sviss í janúar. Í öðrum áfanga er einnig gert ráð fyrir að Ísrael dragi herlið sitt til baka og Hamas leggi niður vopn. Leiðtogar Hamas hafa lýst andstöðu við það og bandarískir embættismenn saka báðar fylkingar um að draga lappirnar, ekki síst Netanjahú. Greinendur hafa sagt annan áfanga í pattstöðu vegna þess og stóra spurningin sé hvað bandarísk stjórnvöld ætli að gera í því. Ísraelsher gerir enn árásir á bækistöðvar Hamas á Gaza og Hezbollah í Líbanon, þrátt fyrir vopnahlé. Talskona Ísraelsstjórnar segir Netanjahú vissulega ætla að ræða annan áfanga samkomulagsins og tryggja þannig að Hamas-hreyfingin verði afvopnuð og Gaza afhernaðarvætt. Eftir ákvæðum fyrsta áfanga samningsins afhentu Hamas alla gísla sína, lífs og liðna, utan líkamsleifa eins. Eins segir talskonan að Netanjahú vilji beina athygli Trumps að þeirri hættu sem Ísrael og Bandaríkjunum stafar af Íran á þessum fimmta fundi þeirra í ár. Orðrómur er uppi um að hann vilji að Bandaríkin leggi aftur til atlögu að kjarnorkuinnviðum þessa erkióvinar Ísraels. Hann óttist að Írönum hafi tekist að byggja þá upp að nýju eftir tólf daga stríðið í júní.