„Ég þekkti ekki sjálfan mig lengur“

Tónlist hefur alla tíð verið órjúfanlegur hluti af lífi Gunnars Kvaran sellóleikara og hann hefur óbifandi trú á heilunarmætti hennar. Í þættinum Töframáttur tónlistarinnar ræðir Halla Harðardóttir við Gunnar um lífssýn hans og hann velur nokkur verk sem hafa haft djúpstæð áhrif á líf hans. Gunna trúir á listina og æðri máttarvöld, aðrar víddir. Heinz Edelstein sagði honum að læra á selló Gunnar hóf nám þegar hann var átta ára í Barnamúsíkskólanum þar sem á meðal kennara var sellóleikarinn Heinz Edelstein. Sjálfur byrjaði hann á blokkflautu eins og flest börn en það var Heinz sem sagði honum að hann ætti að æfa á selló. „Ég horfði á þennan meistara sem ég bar óttablandna virðingu fyrir, sagði ekki orð en kinkaði kolli. Innst inni langaði mig að læra á fiðlu.“ En sem betur fer hlýddi hann Heinz. „Mér fannst þetta mjög spennandi því ég vissi að hann væri frábær sellóleikari svo ég ákvað bara að gera þetta.“ Gunnar eignaðist fyrsta sellóið þegar hann var tólf ára. Hann gerði hlé á ástundun sem unglingur nokkru síðar, því þá fékk hann áhuga á djassi og poppi. Hann lagði frá sér sellóið um hríð en áttaði sig svo á því að það hentaði honum ekki. „Ég missti tvö þrjú ár en það var nauðsynlegt. Þetta var eitthvað sem ég þurfti að fá úr mér og þróa, komast að raun um hvað vildi ég,“ segir hann. „Þegar ég hafði verið í poppheimi í tvö ár sagði ég við sjálfan mig: Nei, þetta er ekki þín leið. Þá sneri ég mér af fullum krafti á selló og sú ástríða hefur aldrei farið.“ Kolféll fyrir franska sellóinu og eignaðist það eftir ótrúlegum krókaleiðum Hann segir skemmtilega frá því í bók sinni Tjáningu hvernig hann eignaðist franskt selló eftir miklum krókaleiðum. Það er mögnuð saga því hún tók nokkur ár að verða að veruleika, ég eignaðist þetta dásamlega franska selló. Hann fluttist til Danmerkur með tékkneskt selló en fann að hann langaði í nýtt hljóðfæri. Gunnar var staddur á herrasetri á Láglandi þar sem hann átti að spila Schuberttríó en á undan honum inn gekk vinur hans, hljóðfærasmiður, og lék á selló sem Gunnar kolféll fyrir. Gunnar heilsaði upp á vin sinn þegar allir höfðu spilað og lýsti yfir hrifningu sinni á sellóinu. Það reyndist vera franskt og 120 ára gamalt. Gunnar spurði hann hvað það myndi kosta ef hann einhvern tíma seldi það. Vinurinn svaraði að það væru um 40 þúsund danskar krónur. Það var meiri peningur en Gunnar átti. „Ég sagði allt í lagi þetta er vonlaust, ég myndi aldrei geta keypt svona hljóðfæri.“ Ári síðar hittust þeir á sama herrasetri og spiluðu en þá var þessi vinur hans kominn með annað hljóðfæri. Gunnar fór strax að velta því fyrir sér hvað hefði orðið um dásamlega hljóðfærið. Í ljós kom að hann hafði selt það manni sem var verkfræðingur en spilaði stundum sér til ánægju. Gunnar varð afar hryggur yfir því. Svo man ég að ég settist í lestina þetta kvöld og þá varð ég leiður. Ég hugsaði: Nú er þessi maður með þetta dýrindis hljóðfæri og spilar kannski bara á það einu sinni í viku. Svo fór ég heim og reyndi að gleyma þessu. Hann fékk nokkrum mánuðum síðar 25 þúsund króna styrk úr sjóði í nafni Jakobs Gade tónskálds. Hann ákvað að spara peninginn. Það er geysilega mikill peningur í höndunum á fátækum námsmanni. Ég hugsaði ég legg þessa peninga inn á banka og ætla að hafa þá þegar mig langar í framhaldsnám. Svo fékk hann símtal frá vini sínum, hljóðfærasmiðnum, sem tilkynnti honum að sellóið sem Gunnar dáðist svo að, væri aftur komið á sölu á 45 þúsund danskar. Gunnar sagðist því miður ekki geta keypt það. Vinurinn setti upp reikningsdæmi, benti honum á styrkinn sem hann hafði fengið og að hann gæti selt sitt selló. Þá væri hann kominn með nóg. Gunnar gat ekki annað en slegið til og varð því ævinlega feginn. Ég gerði þetta, stóðst þetta ekki og ég sé ekki eftir þessu. Sellóið fylgdi mér í hátt í 40 ár. Djúpur dalur og hluti af nauðsynlegu þroskaferli Gunnar hefur sett upp tónleikaröð fyrir fólk sem er á einhvern hátt á jaðrinum og hefur ekki endilega aðgang að tónleikum og tónlist, sérstaklega klassískri. Hann vildi sýna hve heilandi tónlist er fyrir fólk sem er andlega veikt eða hefur verið jaðarsett. Sjálfur hefur hann reynt á eigin skinni að sjá ekkert nema myrkrið var einn sá fyrsti hér á landi til að stíga fram opinberlega og tala opinskátt um reynslu af þunglyndi fyrir nokkrum áratugum. Þetta er dálítið sérstakt þegar maður lítur til baka, að hugsa til þess að maður hafi verið þarna niðri í þessum myrka djúpa dal. Ég hugsa líka um að þetta hafi verið hluti af því þroskaferli sem mér var ætlað að fara í gegnum. Gunnar var að kenna í Tónlistarskólanum í Reykjavík sem hafði verið mikill draumur. Hann tók starfinu alvarlega en það var mjög mikið að gera. Að fá kennarastöðu tók ég mjög alvarlega, fannst það mikil ábyrgð. Ég vildi vanda mig og lagði geysilega hart að mér. En annirnar voru gífurlegar því samhliða kennslunni spilaði hann mikið á tónleikum bæði hér heima og erlendis. Ég bara gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en um seinan að ég hefði gengið gjörsamlega fram af mér. Svo voru ákveðnir hlutir í mínu einkalífi sem höfðu líka bæst ofan á og þegar ég fór að finna fyrir einkennum af þessu djúpa þunglyndi vissi ég ekki hvað var að ske. Hann hafði ekki verið þunglyndur áður og sagði við sjálfan sig að þetta væri aumingjaskapur og hann þyrfti að harka af sér og leggja harðar af sér. Það reyndist vera afar slæm ákvörðun. „Það var það versta sem ég gat gert því þá fór ég gjörsamlega með alla þá orku sem ég hafði. Ég skildi ekki hvað væri að gerast.“ Svo skullu veikindin enn harðar á honum og hann þurfti að staldra við. Ég varð það veikur að ég gat ekki unnið, ekki æft mig. Allt fór að dofna, tilfinningar, trú, samkennd. Ég þekkti ekki sjálfan mig lengur. Og afar neikvæðar hugsanir sóttu á hann og beindust að honum sjálfum. Ég hugsaði með mér: Þú ert einskis virði, þú ert vinnunni til óþurftar og það væri best fyrir heiminn að losna við þig. Það væri bara landhreinsun. Ég hugsaði virkilega svona. Hann var lagður inn á geðdeild þar sem hann var meðhöndlaður en eftir það tók það hann um fimm ár að ná sér af veikindunum. „Eftir fimm ár hugsaði ég: Nú ertu gamli góði Gunnar eins og ég hef þekkt hann.“ Hann hefur fundið fyrir einkennum þunglyndis fjórum sinnum síðan en þekkt þau og náð að grípa inn í. Eitt af því sem hefur hjálpað honum er að forðast ekki þjáninguna. Það má segja að hann hafi fengið eins konar hugljómun þar sem hann sat einn heima hjá sér að hugleiða þjáninguna og átta sig á því að hún er órjúfanlegur hluti lífsins. „Ég sagði þjáning, komdu í faðminn, þú ert ekki aufúsugestur en ég tek á móti þér og þú verður hjá mér eins lengi og nauðsyn krefur.“ Og þá fann hann fyrir miklum létti. Þegar ég hafði gert þetta kom yfir mig óumræðileg blessun og mér fannst eins og englar flygju yfir höfuð mitt, svo mikil var blessunin. Trúir á Guð og aðrar víddir Gunnar er kristinnar trúar en trúir líka á aðrar víddir. Það tvennt segir hann auðveldlega fara saman. Það sem hefur einmitt sannfært mig enn meira um guðdóminn, það er þessi vissa um aðrar víddir. Með skynfærunum getur fólk numið hinn efnislega heim en ekki út fyrir hann. „Það er alveg sama hvað við erum með góðan stjörnukíki, við getum horft milljónir ljósára út í geiminn og það er stórkostlegt en það er bara hinn efnislegi heimur. Hinar víddirnar sjáum við ekki en einstaka maður sér og skynjar þær,“ segir hann. „Mér finnst líka eftir því sem ég eldist, sé ég heiminn ekki lengur í svörtu og hvítu heldur óendanlega liti. Þess vegna eru heimarnir óendanlegir, ekki spurning.“ Þegar Gunnar Kvaran er að lokum spurður um tilgang lífsins svarar hann: Það er kannski enginn mannlegur máttur sem getur svarað þeirri spurningu fullnægjandi en tilgangur lífsins er náttúrulega sá að við þroskumst og þróumst og eflumst í þessu jarðlífi, okkar líf er gjöf sem við þurfum að fara vel með. Í mínum huga er þetta bara örlítið brot af þeirri eilífð sem bíður okkar og hefur alltaf verið hluti af okkar anda. „Ég varð það veikur að ég gat ekki unnið, ekki æft mig. Allt fór að dofna, tilfinningar, trú, samkennd,“ segir Gunnar Kvaran sellóleikari sem var einna fyrstur til að opna sig um reynslu af þunglyndi.