Herinn í Taívan segist á hæsta viðbúnaðarstigi til að verja eyjuna. Þetta kemur fram í myndskeiði sem herinn sendi frá sér eftir að Kínverjar hófu æfingar við eyjuna bæði á sjó og í lofti. Í myndskeiðinu segir að öryggi geti ekki byggst á blekkingum og að aðrir geti ekki tekið ákvörðun því tengdu. Val Taívan sé að vera við öllu búið. Samheldni og þrautseigja sé styrkur samfélagsins og með það sameinað að baki sér standi herinn þétt gegn öryggisógnum. Í yfirlýsingu sem fylgir myndskeiðinu er óskynsamleg ögrun kínverska hersins fordæmd. Þá segir varnarmálaráðuneytið að 89 herflugvélar og 28 herskip frá Kína athafni sig nærri eyjunni.