Tíu áramótabrennur í Reykjavík

Tíu áramótabrennur verða í Reykjavík á gamlárskvöld. Umsjón með þeim verður ýmist á hendi borgarinnar eða félagasamtaka. Í tilkynningu frá borginni segir að hátíðahöldin séu þó háð veðri. „Fyrir hádegi á gamlársdag er veðurspá skoðuð og ákvörðun tekin um hvort það megi tendra um kvöldið. Brennur eru ekki tendraðar ef vindhraði fer yfir 10 m/s,“ segir á vef borgarinnar . Brennurnar verða flestar litlar. Stórar brennur verða á norðanverðu Geirsnefi og við Gufunesbæ á Gufunesi. Til stendur að tendra í öllum brennunum klukkan 20:30. Mælt er með því að fólk komi gangandi að brennunum en skert aðgengi verður fyrir akandi vegfarendur. Nánar má lesa um götulokanir við brennur á vef Reykjavíkurborgar . Í tilkynningu borgarinnar er auk þess vakin athygli á því að flugeldar og skotblys eru óheimil við brennur en leyfilegt er að kveikja á stjörnuljósum og blysum sem ekki eru skotblys. Dagana fyrir gamlársdag verður unnið að því að setja upp gáma undir flugeldarusl á tíu grenndarstöðvum í Reykjavík. Einnig verður hægt að skila flugeldaleifum á endurvinnslustöðvar Sorpu frá og með 2. janúar.