Í nægu er að snúast hjá björgunarsveitum landsins nú þegar flugeldasala, ein helsta fjáröflun sveitanna, stendur sem hæst. Þorbjörg Petrea Pálsdóttir hjá Landsbjörg ræddi við Morgunútvarpið í morgun um vinsældir í flugeldakaupum. „Það er náttúrulega það skemmtilegasta að kaupa þessar kökur sem við erum með. Þetta eru bara svona hálfgerðar flugeldasýningar í kassa.“ Hvað með ílurnar, eru þær alfarið á útleið? „Þær hafa minnkað svolítið með árunum en það eru alltaf einhverjir sem koma og biðja um ílur. En því miður þá hefur það aðeins minnkað, ég veit ekki hvort það er jákvætt eða neikvætt. Sumir myndu klárlega líta á það sem neikvætt.“ Algengt að einn úr götunni sjái um að kaupa og skjóta upp Þó einhverjir vilji halda í nostalgíuna segir Þorbjörg helstu breytinguna vera í sölu á smávörum, sem hafi minnkað síðustu ár þó að hún sé enn töluverð. „Það sem mér finnst ómissandi eru held ég partípopperarnir, sem við flest þekkjum, flöskurnar með pappastrimlunum.“ Þorbjörg segir björgunarsveitirnar eiga sér velunnara víða og margir geri vel í því að styrkja málefnið með flugeldakaupum. Sumir komi með tiltekna upphæð í huga á meðan aðrir taki sig saman og sendi einn fyrir hópinn. „Það er mjög algengt að það kemur fólk sem er búið að sameina sig í götunni og þá kemur bara einn og kaupir fyrir alla götuna og er að skjóta þá upp fyrir marga í götunni.“ Björgunarsveitarfólk hefur í nægu að snúast í flugeldasölu síðustu daga ársins. Vinsælast er að kaupa stórar rakettur og tertur en vinsældir ílunnar og innisprengja dvína með árunum.