Erlendir hermenn í Úkraínu eru nauðsynlegur hluti af öryggistryggingu fyrir landið. Þetta sagði Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu í morgun. Þá vill hann fá fulltrúa Evrópu og Bandaríkjanna á sameiginlegan fund í Kyiv á næstu dögum. Donald Trump forseti Bandaríkjanna sagði eftir fund þeirra í gærkvöld að friðarsamkomulag hefði aldrei verið jafn nærri og nú, en að ýmis stór mál væru enn óleyst, til dæmis með landsvæði. Dmitry Peskov talsmaður rússneskra stjórnvalda tók undir það mat í morgun. Zelensky ræddi við blaðamenn á Palm Beach í morgun um mögulegt friðarsamkomulag og kom víða við. Hann sagði meðal annars að aðgerðir Rússa samræmdust ekki friðsamri orðræðu Vladimírs Pútín forseta Rússlands í símtali hans við Trump í gær. Rússar héldu áfram að skjóta eldflaugum að Úkraínu og Pútín fagnaði því að borgaralegum mannvirkjum sé eytt. Zelensky sagði jafnframt að hann myndi vilja fá embættismenn frá Evrópu og Bandaríkjunum til Kyiv á næstu dögum til að vinna að stríðslokum. Sá fundur yrði þó aðeins hugsaður til ráðgjafar. Fulltrúar þeirra ættu einnig að undirrita friðarsamkomulag, myndi það nást. Stjórn á Donbas-héraði er enn óleyst að sögn Zelensky. Dmitry Peskov sagði í morgun að ef Úkraínumenn vildu frið ættu þeir að draga herlið sitt frá þeim hluta Donbas sem þeir ráða ennþá yfir. Náist friðarsamningar ekki gæti það þýtt að Úkraínumenn tapi meira landi. Þá sagði Zelensky að Bandaríkin byðu Úkraínu sterka öryggistryggingu í 15 ár en Úkraínumenn vildu hafa þann tíma lengri, til dæmis 30-50 ár. Forsetinn hafi sagst myndu hugsa málið. Þá sagði hann að þegar stríðinu lyki og öryggistryggingar væru staðfestar myndu stjórnvöld aflétta herlögum. Friðarsamkomulag þyrfti hins vegar að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og það tæki 60 daga. Til þess þyrfti tímabundið vopnahlé og óvíst er hvort Rússar myndu samþykkja slíkt.