Samvinnurými mikilvæg brú milli ólíkra starfa

Vinsældir samvinnurýma hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár, jafnt á landsbyggðinni sem höfuðborgarsvæðinu. Í þeim gefst fólki og fyrirtækjum kostur á að deila vinnuaðstöðu. Múlinn í Neskaupstað var opnaður 2021 og hefur gengið vonum framar. Guðmundur Rafnkell Gíslason, framkvæmdastjóri Múlans, segir 24 ný störf hafa skapast með Múlanum og 19 þeirra haldist þar enn. Það sé gríðarlega dýrmætt í 1500 manna samfélagi. Starfsfólk Múlans kemur úr ýmsum áttum og mörg hver fagna því að losna úr einangruninni sem fylgir því að vinna heima. Þeirra á meðal eru þjóðskjalavörður og snjóflóðasérfræðingur sem báðar segja góðan starfsanda í húsinu.