Nýtt skjólshús „langþráður draumur okkar margra“

Geðhjálp undirritaði í morgun samstarfssamning við félags- og húsnæðismálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið um stofnun skjólshúss fyrir fólk í tilfinningalegri krísu vegna andlegra áskorana. Þar gefst fólki kostur á skammtímadvöl þangað sem hægt er að leita í allt að tvær vikur í stað innlagnar á geðdeild. Þar geta allt að fimm einstaklingar dvalið á hverjum tíma. Svava Arnardóttir, formaður Geðhjálpar, segir þörf hafa verið á slíku húsi. „Þetta er annar valkostur við það að leggjast inn á geðdeild, sem dæmi. Í einhverjum tilvikum gæti þetta komið í staðinn fyrir innlögn,“ segir Svava. Úrræðið geti einnig nýst fólki sem ekki er komið á þann stað að þurfa á innlögn að halda. Stefnt að opnun á næsta ári „Þetta er úrræði þar sem er önnur hugmyndafræði. Það er ekkert heilbrigðisstarfsfólk sem vinnur þar, og það er engin meðferð sem á sér stað í skjólshúsi, heldur jafningastarfsmenn sem hafa upplifað krísur á eigin skinni og andlegar áskoranir og eru reiðubúnir til að miðla þeirri reynslu og styðja fólk til að ná lendingu.“ Þetta er nýtt úrræði hér á landi en þekkist víða erlendis sem valmöguleiki í geðþjónustu. Reksturinn er tilraunaverkefni til þriggja ára, en ráðuneytin tvö leggja til rúmar 120 milljónir á móti 150 til 180 milljónum frá Geðhjálp. Stefnt er að því að opna skjólshúsið á fyrri hluta næsta árs. Sambærileg úrræði í útlöndum fullnýtt frá upphafi Svava segir reynslu af sambærilegum skjólshúsum hafa verið góða. „Þau skjólshús sem hafa verið sett á legg á þessari hugmyndafræði, sem byggja á henni, þau hafa verið alveg fullnýtt frá upphafi. Þau hafa ekkert þurft að auglýsa sig og fólk hefur verið ánægt með dvölina.“ Aðdragandinn hefur verið langur. „Það hafa verið grasrótarhópar í íslensku samfélagi, að mér vitandi, í áratugi að undirbúa og láta sig dreyma um skjólshús. Þetta er langþráður draumur okkar margra,“ segir Svava Arnardóttir, formaður Geðhjálpar.