Byrjaði sem grín: „Allt í einu eru uppseldar Laugardalshallir og gullplötur“

Í þættinum Íslenskar súpergrúppur á Rás 2 stiklar Guðmundur Pálsson á stóru í íslenskri tónlistarsögu ásamt góðum gestum og gerir tilraun til að gefa einhvers konar yfirlit yfir nokkrar af þeim hljómsveitum sem gætu flokkast sem íslenskar súpergrúppur - allt frá Trúbroti til Iceguys. Hann ræðir meðal annars við Jón Jónsson forsprakka Iceguys en með honum í hljómsveitinni eru, eins og líklega allir vita, Friðrik Dór bróðir hans, Aron Can, Herra Hnetusmjör og Rúrik Gíslason fótboltamaður. „Ég hugsa að ég hafi ekki endilega ætlað þá leiðina, að búa til súpergrúppu. Vissulega voru það stór nöfn sem poppuðu í hugann en þetta snerist meira um að gera eitthvað skemmtilegt.“ Hann hafi ákveðið strax hverjir ættu að tilheyra hópnum enda nennti hann ekki að vera með prufur. „Maður vissi hvað þessir gæjar höfðu upp á að bjóða en vissi líka að Rúrik væri svona wild card . Hann var ekki búinn að vera að gefa út lög en ég vissi hvað hann gæti gert.“ Hugmyndina fékk hann á fundi með Friðriki bróður sínum og umboðsmanni þeirra Þorkeli Mána Péturssyni. „Þetta er 1. febrúar 2023 og við erum að fara aðeins yfir hvað við ætlum að gera. Ég segi eiginlega í lokin bara: heyrðu svo væri gaman að...“ rifjar hann upp og skellihlær. Máni hafi einnig hlegið. „Máni hristir hausinn og hlær, segir já þú getur heyrt í þeim.“ En Jóni var nógu mikil alvara. Strax eftir fundinn sendi hann drengjunum myndskeið þar sem hann útskýrði hugmyndina og bætti þeim við í spjallhóp sem hann kallaði Iceguys. Þeir slógu allir strax til nema Rúrik sem óttaðist að þýskir aðdáendur hefðu ekki húmor fyrir uppátækinu. „Hnetan var klár, Aron en Rúrik eins og ég hef sagt áður fór að hugsa um Þjóðverjann, að hann gæti mögulega ekki fattað þetta,“ segir Jón. En loks auðvitað lét hann til leiðast og grínið varð að risastóru verkefni, plötum, sjónvarpsþáttum og stórtónleikum. „Það er mjög mikið grín innan hópsins að Rúrik sé alltaf að ítreka það við sína fylgjendur að þetta hafi byrjað sem brandari. Alltaf: „what started as a joke” en allt í einu eru uppseldar Laugardalshallir og gullplötur,“ segir hann. „Upprunalega hugmyndin að gera eitt klisjukennt myndband og lag, gleðisprengju inn í sumarið.“ Jón Jónsson fékk hugmyndina að því að setja saman hljómsveit þekktra tónlistarmanna og kalla hana Iceguys. Upphaflega átti að gefa út eitt lag en uppátækið vatt heldur betur upp á sig.