Uppsagnir á Morgunblaðinu

Kolbrúnu Bergþórsdóttur og Víði Sigurðssyni hefur verið sagt upp störfum á Morgunblaðinu. Kolbrún, sem stödd er erlendis, staðfestir í samtali við fréttastofu að henni hafi verið sagt upp. Vísir greinir frá uppsögn Víðis. Víðir, sem var fréttastjóri íþróttadeildar Morgunblaðsins, greindi samstarfsmönnum sínum frá uppsögninni í tölvupósti. „Mér var sagt upp störfum hjá Árvakri núna fyrir hádegið og hef yfirgefið Hádegismóana fyrir fullt og allt eftir 26 ár hjá fyrirtækinu,“ segir í póstinum. Hann hefur unnið hjá Morgunblaðinu í rúman aldarfjórðung. Kolbrún á einnig að baki langan feril í fjölmiðlum. Hún hefur starfað á Morgunblaðinu frá janúar 2023. Hún var áður menningarritstjóri Fréttablaðsins og starfaði lengi á DV. Hún er auk þess einn af gagnrýnendum Kiljunnar á RÚV. Fréttastofa hefur hvorki náð tali af starfsmannastjóra Árvakurs né ritstjóra Morgunblaðsins.