Rússar reyni að hafa sem mest áhrif á almenna borgara í jólaárásum

Sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu segir árásir Rússa yfir jólahátíðina hafa beinst gegn almennum borgurum og borgaralegum innviðum. Hann segir árásirnar ekki gefa til kynna að Rússar séu í friðarhugleiðingum en fagnar því að viðræðum um öryggistryggingar verði fram haldið eftir áramót. „Það sem virtist vera þar eina ferðina enn áherslan á að ná á raforku- og hitaorkuver. Þannig að það hefði sem mest áhrif á almenna borgara í Úkraínu og sérstaklega í höfuðborginni,“ segir Friðrik Jónsson, sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu, um árásir Rússa á Úkraínu síðustu daga. Hann segir Rússa hafa notað árásir á íbúðahverfi til beina athyglinni frá alvöru skotmörkum Rússa. Hann segir höfuðborgina Kyiv hafa átt við töluvert hita- og rafmagnsleysi vegna árásanna. „Þetta var það mikið í íbúðarhverfum og annað að þetta bar allt svolítið með sér að það væri verið að reyna yfirþyrma loftvarnir þannig að komast mætti að innan þessum orkuverum og hitaorkuverum,“ segir Friðrik. Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnti í nótt að samherjar Úkraínu myndu hittast í París snemma í janúar til að ræða hvað þau væru tilbúin að leggja til öryggistryggingar fyrir Úkraínu. Friðrik segir allt samtal af hinu góða. „Það er bara mjög gott að bandalagsríki og þau ríki sem hafa verið að styðja við bakið Úkrana haldi áfram að tala saman, hvernig þau geti samhæft sinn stuðning við Úkraínu, hvernig hann getur þróast áfram, hvernig er hægt að bæta í og gera betur og það er eðlilegt að þetta haldi allt áfram, að skilgreina vel hvað löndin ætla að leggja til ef að friðarsamningum verður, og hvernig stuðningi verður haldið áfram ef ekki verður af samningum.“