Lýsa áhyggjum af bikblæðingum á Austfjörðum

Bæjarráð Fjarðabyggðar lýsir yfir verulegum áhyggjum af síendurteknum bikblæðingum á þjóðvegi 1 um Austfirði og Fagradal. „Fyrir jól urðu talsverðar bikblæðingar á Suðurfjarðarvegi og má víða sjá sár í slitlagi þar sem umferð hefur rifið upp heilu malbiksbútana. Malbiksklessur liggja því víða á veginum og ástandið hefur versnað eftir því sem liðið hefur á,“ segir í bókun bæjarráðs. Ráðið segir ástand Suðurfjarðarvegar sérstakt áhyggjuefni. „Auknar bikblæðingar valda tjóni á bifreiðum, hafa neikvæð áhrif á öryggi vegfarenda og valda íbúum og atvinnulífi vandræðum er þau sækja vinnu, skóla og þjónustu milli byggðarkjarna ásamt þungaflutningum.“ Ráðið segir veginn þjóðhagslega mikilvægan. Hann sé tenging við stærstu fiskihafnir landsins sem og eina stærstu vöruútflutningshöfn Íslands. „Þungatakmarkanir og lakara ástand vegarins hafa því bein áhrif á verðmætasköpun og gera atvinnulífinu verulega erfitt fyrir ásamt því að valda íbúum vandræðum í daglegum erindum.“ Bæjarráð leggur því áherslu á að aukið öryggi á veginum verði tryggt og að gripið verði tafarlaust til viðeigandi úrbóta.