Má vakta vinnurými starfsmanna í Eddu með myndavélum

Árnastofnun má vakta vinnurými starfsmanna í Eddu, húsi íslenskunnar, með eftirlitsmyndavélum, samkvæmt úrskurði Persónuverndar. Stofnunin leitaði til Persónuverndar eftir að tveir starfsmenn lögðust gegn myndavélaeftirliti á starfsstöð sinni og vísuðu í lög um persónuvernd. Í Eddu eru varðveitt söguleg handrit og önnur gögn. Þau eru vistuð á sérstöku öryggissvæði. Í erindi Árnastofnunar segir að myndavélar gegni lykilhlutverki við að tryggja þar sígæslu. Staðsetning myndavéla hafi verið kynnt öllu starfsfólki og sérstök áhersla lögð á að þeir sem þar starfi væru upplýstir um staðsetningu myndavélanna. Vöktun á umræddu svæði sé öryggisráðstöfun og myndefni aðeins skoðað ef þess gerist þörf. Starfsmennirnir sögðu nauðsyn á eftirlitsmyndavélum á vinnustofum sínum vera stórlega ofmetna. Áður en flutt var í nýtt húsnæði hafi aldrei komið til tals að nauðsynlegt væri að vakta einstaka starfsmenn. Ytri aðstæður hefðu ekki breyst þannig að skyndilega væri þörf á stóraukinni öryggisgæslu og vöktun starfsfólks. Þeir sögðu einnig að meðalhóf skorti við vöktun. Verklagsreglur tryggðu öryggi handritanna, meðal annars með því að þau væru geymd í læstum skáp þegar ekki væri verið að vinna með þau. Einnig var tekið fram að ráðgjöf öryggisráðgjafa Eflu hf., sem væri ekki titlaður öryggissérfræðingur á heimasíðu fyrirtækisins, yrði að skoðast í ljósi hagsmuna þess í tengslum við umfangsmikla hönnun öryggiskerfis. Persónuvernd féllst á sjónarmið Árnastofnunar að fyrir vöktuninni væru brýnar ástæður. Í niðurstöðu hennar segir hún ljóst að ríkir hagsmunir séu af því að tryggja öryggi þeirra handrita sem Árnastofnun varðveitir. Hún gerði ekki athugasemdir við vöktunina sem slíka en taldi að fræðslu til starfsfólks hefði þurft að veita fyrr en gert var.