Miðflokkurinn heldur áfram að bæta við sig fylgi í þjóðarpúlsi Gallup og myndi tvöfalda þingmannafjölda sinn ef gengið yrði til kosninga nú. Samfylkingin mælist enn stærst en fylgi hinna stjórnarflokkanna dalar töluvert frá kosningum. Samfylkingin er sem fyrr stærst, fengi rétt tæplega 31% fylgi, sem er um 10% meira en í kosningunum fyrir ári. Flokkurinn mælist stærstur í öllum kjördæmum. Miðflokkurinn heldur áfram að bæta við sig, fengi tæplega 22% samanborið við 12% í kosningum. Hann bætir við sig tveimur prósentustigum frá síðustu könnun. Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað frá síðustu könnun, fengi um 17% sem er tveimur prósentustigum minna en í kosningum. Fylgi Viðreisnar heldur áfram að dala. Flokkurinn fékk tæplega 16% í kosningunum en fengi nú tæplega 11%. Flokkur fólksins er á svipuðu róli og í síðustu könnun en fengi töluvert minna en í kosningum, færi úr tæplega 14% niður í 5,5%. Þjóðarpúls Gallup nóvember 2025 Fleiri kannanir og greiningar má finna á ruv.is/kosningar . Fylgi Framsóknarflokksins nálgast hættumörk, hann rétt skríður yfir 5% þröskuldinn eftir að hafa fengið tæplega 8% í kosningunum. Aðrir flokkar eru töluvert frá því að ná inn á þing. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er 47% en stuðningur við ríkisstjórnina fer úr 59% í 55%. Samkvæmt þessu fengi Samfylkingin 22 þingmenn og myndi bæta við sig sjö, Viðreisn fengi sjö þingmenn og tapaði fjórum og Flokkur fólksins færi úr ellefu í þrjá þingmenn. Ríkisstjórnin héldi samkvæmt þessu velli með minnsta mögulega meirihluta, eða 32 þingmenn. Miðflokkurinn myndi tvöfalda þingmannafjölda sinn, úr átta í 16. Sjálfstæðisflokkurinn tapa tveimur þingmönnum, færi úr 14 í 12, og Framsóknarflokkurinn færi úr fimm þingmönnum niður í þrjá.