Jólin „heppilegur tími“ til að vera ráðherra þriggja ráðuneyta

Engar breytingar verða gerðar á ráðherraskipan ríkisstjórnarinnar á ríkisráðsfundi á morgun. Þetta segir formaður Flokks fólksins, sem fer tímabundið með málefni þriggja ráðuneyta. Breytingar á ráðherraliði Flokks fólksins ekki á döfinni Árlegur ríkisráðsfundur hefur verið boðaður á Bessastöðum á morgun, en ekki á gamlársdag eins og venja er. Margir hafa velt fyrir sér hvort þar eigi að stokka upp í ráðuneytum Flokks fólksins - þar sem Inga Sæland, formaður flokksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, fer nú með málefni allra þriggja ráðuneyta flokksins. Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, er í veikindaleyfi og tók Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra við málefnum ráðuneytisins í fjarveru hans. Rétt fyrir jól fór Eyjólfur svo sjálfur í fæðingarorlof og Inga Sæland leysir Eyjólf af á meðan. Inga segir, þrátt fyrir þetta, ekki standa til að gera breytingar á ráðherraskipan fyrir áramót. Þetta eru stórir málaflokkar undir hverju ráðuneyti. Hvernig ætlarðu að sinna hverju og einu svo vel sé? „Ég myndi telja að akkúrat þessi tími sé nú heppilegur þegar maður er formsins vegna að þurfa að taka á sig svona embættismannatitla eins og það að vera ráðherra í þremur ráðuneytum, að það skuli detta hér inn í jólin,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. „Eyjólfur Ármannsson er að fara að eignast lítið barn núna í upphafi janúar. Hann verður kominn aftur fljótlega í kringum miðjan janúar. Guðmundur Ingi var að koma úr hjartaaðgerð og hann á bara að njóta vafans hvað það varðar og fá bara að meta það sjálfur hversu langan tíma hans endurhæfing tekur í kjölfarið.“ Þrýsta á Flokk fólksins að gera breytingar Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa hinir ríkisstjórnarflokkarnir þrýst á Flokk fólksins að gera breytingar á ráðherraliði sínu. Inga segir ekkert því til fyrirstöðu að hún sinni þremur ráðuneytum til skamms tíma. „Hér eru sex stuðningsmenn eða aðstoðarmenn sem eru til staðar og gott fólk sem þekkir vel til allra verka í ráðuneytunum og ég held að ég sé alveg í stakk búinn til að geta fylgt því eftir,“ segir Inga. Þannig að þú gerir ráð fyrir því að öllu óbreyttu að Guðmundur Ingi, snúi til baka sem mennta- og barnamálaráðherra? „Guðmundur Ingi, eins og ég sagði, hann var að koma úr aðgerð og við skulum bara lofa honum að taka ákvörðun um það.“ Engar breytingar verða gerðar á ráðherraskipan Flokks fólksins á ríkisráðsfundi á morgun. Inga Sæland, formaður flokksins, fer með málefni þriggja ráðuneyta fram í miðjan janúar.