Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti leiðtoga heimsins til að setja fólkið og jörðina í forgrunn í nýársávarpi sem hann sendi frá sér í dag. Guterres útmálaði heldur myrka mynd af heiminum. „Þegar nýtt ár gengur í garð stendur heimurinn á tímamótum. Glundroði og óvissa er allt í kringum okkur. Deilur. Ofbeldi. Loftslagsvá. Og kerfisbundin brot á alþjóðalögum,“ sagði Guterres. Leiðtogar verði á komandi ári, þegar stríðsátök geisa víða um heim, að gera sitt til að binda enda á þjáningu fólks og berjast gegn loftslagsbreytingum. „Ég skora á leiðtoga alls staðar: Takið þetta alvarlega. Veljið fólk og jörð fram yfir sársauka,“ sagði hann. Guterres benti á að útgjöld til hernaðar hefðu aukist um hátt í 10% á þessu ári og væru nú 2,7 trilljónir (2.700.000.000.000.000) bandaríkjadala. Það sé 13 sinnum meira en öll heimsbyggðin setji í þróunaraðstoð og álíka mikið og verg landsframleiðsla í Afríku í heild sinni. Stríðsátök hefðu ekki verið meiri í heiminum frá því í seinni heimsstyrjöldinni. „Á nýju ári skulum við forgangsraða. Við byrjum á að auka öryggi heimsins með því að fjárfesta meira í baráttu gegn fátækt og minna í að heyja stríð. Það verður að ríkja friður,“ sagði hann. Guterres er á lokaári sínu í embætti sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.