Bankarnir og smásölurisarnir eru sigurvegarar ársins á hlutabréfamarkaði. Fjármálafyrirtækin raða sér í efstu sætin yfir þau fyrirtæki sem hækkuðu mest á árinu en Alvotech lækkaði mest allra fyrirtækja. Að mati Alexanders J. Hjálmarssonar, stofnanda Akkur – greining og ráðgjöf, stendur sala Íslandsbanka og fall Play upp úr á árinu sem er að líða. Miðað við fyrri útboð þótti salan á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka almennt heppnast vel. Seldir voru hlutir fyrir rúmlega 90 milljarða króna, að mestu leyti til almennings. Rúmlega 30 þúsund manns tóku þátt í útboðinu og má segja að þeir hafi fengið eitthvað fyrir sinn snúð enda er verðmæti hlutarins í dag um þriðjungi hærra en útboðsgengið. Fall flugfélagsins Play kom í sjálfu sér ekki á óvart enda hafði félagið verið rekið með miklu tapi frá stofnun. Tímasetningin var hins vegar óvænt, rétt eftir háannatímabil í flugi og að nýloknu hlutafjárútboði. Eftir sátu margir með sárt ennið, 18 þúsund manns urðu strandaglópar, fjögur hundruð manns misstu vinnuna og fjárfestar töpuðu milljörðum króna. Óvissa um stóra samruna Árið var tíðindalítið í nýskráningum í kauphöllina en nokkur ný félög gætu bæst í hópinn á næsta ári. Lengi hefur verið beðið eftir Bláa lóninu og Coripharma á markað og þá hefur verið rætt um skráningu Arctic Adventures og Icelandia, eða Kynnisferða, á markað en gangi sá samruni eftir verður til nýr risi í ferðaþjónustu. Loks er samruni stórra fyrirtækja í pípunum. Arion banki og Íslandsbanki háðu harða baráttu um Kviku og hafði sá fyrrnefndi betur. Íslandsbanki sneri sér þá að Skaga, sem meðal annars á VÍS. Óvíst er hvort þetta nái í gegn og raunar gefa viðbrögð markaðarins undanfarið vísbendingar um að ólíklegra sé að úr verði heldur en hitt. Árið 2025 var ár banka og smásölurisa á hlutabréfamarkaði. Fall Play og hlutafjárútboð Íslandsbanka voru stærstu tíðindi ársins. Íslenski markaðurinn sker sig úr Eftir þokkalega byrjun á árinu fór að halla undan fæti í kauphöllinni. Þann 2. apríl tóku hlutabréf djúpa dýfu, en þá hafði Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnt um umfangsmikla tolla á flest ríki heims, þar með talið 15 prósenta tolla á íslenskar vörur. Markaðurinn hefur náð að rétta úr kútnum en hefur enn ekki náð sömu hæðum og í ársbyrjun. Kauphallirnar í nágrannalöndunum fundu einnig fyrir áhrifum af tolladegi Trumps en þar hefur viðspyrnan verið mun öflugri en hér heima. Víðast hvar hafa vísitölurnar hækkað um 15 til 20 prósent. „Þetta hefur í rauninni verið alveg samfellt frá innrásinni í Úkraínu í febrúar 2022, þá hafa markaðir verið að gefa verulega á bátinn heilt yfir samanborið við erlenda markaði. Eiginlega alveg sama hvar þú bregður niður fæti. Ég held að stærsta ástæðan sé að það eru hærri vextir hér og fólk hefur, sérstaklega almenningur, ekki verið að fjárfesta í jafn miklum mæli á hlutabréfamarkaði,” segir Alexander og bætir við að uppsafnað útflæði úr hlutabréfasjóðum frá febrúar 2022 nemi 20 milljörðum. Þótt úrvalsvísitalan hafi lækkað á það ekki við öll fyrirtæki í kauphöllinni, sum áttu raunar góðu gengi að fagna. Af þeim 27 fyrirtækjum sem mynda úrvalsvísitöluna hækkuðu 15 á árinu en 12 lækkuðu. Fjármálafyrirtæki og smásölurisar eru þau fyrirtæki sem hækkuðu mest. Bankar skipa þrjú efstu sætin og hækkun hjá Högum og Festi náði líka tveggja stafa tölu á árinu. Listinn yfir mestu lækkanir er nokkuð fjölbreyttari. Lyfjafyrirtækið Alvotech lækkaði langmest og þar á eftir komu Sýn og Icelandair en rekstrarvandi þeirra hefur verið mikið í fréttum á árinu. Loks var það Play sem hvarf af markaði eftir gjaldþrot. „Ég myndi segja að þetta væri ár bankanna og smásölufélaganna. Bankarnir hækkuðu mest allra félaga á árinu og smásölufélögin áttu mjög gott ár, bæði á hlutabréfamarkaði og í undirliggjandi rekstri. Hjá bönkunum myndi ég segja að þetta væri áframhaldandi góður undirliggjandi rekstur en svo náttúrlega voru þessi svokölluðu vaxtamál sem nú eru frá. Það er komin niðurstaða í þau og þá er búið að eyða þessari óvissu sem var búin að hanga yfir þeim í nokkur ár,” segir Alexander.