Ferðamenn sóttir eftir að hafa blikkað TF-SIF

Viðbragðsaðilar voru fljótir að staðsetja ferðamenn sem lentu í vandræðum norðan við Heklu í dag í kjölfar skjótra viðbragða áhafnar TF-SIF, eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar. Áhöfnin kom auga á bíl ferðamannanna þegar þeir blikkuðu framljósunum til hennar. TF-Sif var á leið heim úr hefðbundnu eftirlitsflugi þegar útkallið barst í kringum klukkan 17:00. Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu voru ferðamennirnir á Landmannaleið og höfðu samband við neyðarlínuna og óskuðu eftir aðstoð. Ekki er ljóst í hvers konar vandræðum fólkið lenti en Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagðist telja að það hefði setið fast. Hann segir að áhöfn TF-SIF hafi tekið stefnuna í átt að Heklu um leið og hún fékk veður af leitinni. Skilyrði hafi verið góð og leitin aðeins tekið 27 mínútur frá því að útkallið barst þar til búið var að staðsetja bílinn. „Vélinni var flogið í lægri hæðum og lendingarljósunum blikkað. Bíllinn blikkaði framljósunum á móti þannig að þeir sem voru í bílnum komu auga á vélina og svo öfugt. Gæslan gat þá látið björgunarsveitina vita þannig að það var þá hægt að koma fólkinu til aðstoðar,“ sagði Ásgeir. Björgunarsveit frá Hellu sótti svo ferðamennina. Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar sagði fólkið ekki hafa verið í neinni hættu.