Skjólshús Geðhjálpar gæti dregið úr innlögnum á geðdeild

Alma Möller heilbrigðisráðherra segir nýtt Skjólshús Geðhjálpar, sem opnar á næsta ári, að vonum geta dregið úr innlögnum á Landspítala. Hún segir Skjólshús jafnframt mikilvægan lið í að efla framboð og bjóða upp á fleiri valmöguleika til að grípa fólk í vanlíðan. Heilbrigðisráðherra, félags- og húsnæðimálaráðherra og formaður Geðhjálpar skrifuðu undir samstarfssamning í dag, en verkefnið er tilraunaverkefni til þriggja ára. Úrræðið er fyrir átján ára og eldri sem treysta sér ekki til að vera heima vegna andlegra erfiðleika. Þar getur fólk dvalið til skamms tíma, áður en það telur sig þurfa á innlögn á geðdeild að halda eða í stað slíkrar innlagnar. Allt að fimm geta dvalið þar hverju sinni, þeim að kostnaðarlausu. „Auðvitað er það Geðhjálp sem hefur drifið þetta verkefni, en þetta hljómar mjög vel í mín eyru og ég bind vonir við þetta úrræði. Við sjáum hvað það er mikilvægt að það sé fjölbreytni í úrræðum,“ segir Alma. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, tekur undir mikilvægi þess að fjölbreytt úrræði standi fólki til boða. Hann bendir á að úrræði eins og Skjólshús hafi ekki áður verið í boði á Íslandi. „Þetta er þitt val, að fara þarna inn. Sumir vilja ekki fara til dæmis inn á geðdeild en gætu hugsað sér að fara þarna inn og eru kannski bara í þannig ástandi að það sé ekki gott að vera heima. Þetta skiptir miklu máli,“ segir hann. Skjólshús, nýtt úrræði Geðhjálpar fyrir fólk sem glímir við andlegar áskoranir, gæti dregið úr fjölda innlagna á Landspítala. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir mikilvægt að fólk geti sótt sér hjálp á eigin forsendum. Mikilvægt að fólki standi fjölbreyttir kostir til boða Grímur segir úrræðið fyrir alla og á þeirra eigin forsendum. Hann bendir á að starfsfólk skjólshússins búi allt að jafningjareynslu. „Það er sjálft með reynslu af því að glíma við andlega erfiðleika. Þetta hefur gefið mjög góða raun til dæmis í Bandaríkjunum, það var að opna í Hollandi, þetta er í Danmörku og mjög víða, og skiptir bara miklu máli upp á flóruna. Að gefa slakann í því hvernig þú vilt takast á við bataferlið, sem er svo mikilvægt,“ segir Grímur. Grímur á von á að Skjólshús hafi áhrif á fjölda innlagna á Landspítala. „Þetta eru fimm í einu en þetta er vika til tvær vikur sem fólk er þarna, á hverjum tíma, þannig að þetta rúllar hratt. Það að komast inn í þetta jafningjaumhverfi, að komast inn í þetta batamiðaða umhverfi, getur skipt miklu máli og dreifir sér í rauninni og hefur meiri áhrif á fleiri heldur en eru þarna nákvæmlega á þeim tíma sem þeir eru þarna inni.“ Stofnun Skjólshúss geti því verið ávinningur fyrir starfsemi geðdeildar Landspítalans. „Þetta er auðvitað ekki til höfuðs geðdeildar Landspítalans, enda styður fólkið sem þarf starfar þessa starfsemi,“ segir Grímur.