Vignir Vatnar einum vinningi á eftir Carlsen

Heimsmeistaramótið í hraðskák klárast á morgun en það fer árlega fram samhliða heimsmeistaramótinu í atskák sem Norðmaðurinn Magnus Carlsen sigraði í gær. Þrettán umferðir af nítján voru tefldar í dag og eru þrír jafnir á toppnum með tíu vinninga: Indverjinn Arjun Erigaisi, Frakkinn Maxime Vachier-Lagrave og Bandaríkjamaðurinn Fabiano Caruana. Af þeim er Vachier-Lagrave sá eini sem hefur unnið mótið en það gerði hann 2021. Eftir umferðirnar nítján er leikið í útsláttarkeppni. Í fyrra mættust Carlsen og Rússinn Ian Nepomniachtchi í úrslitaviðureigninni og eftir að þeir gerðu þrjú jafnteflu í bráðabana sömdu þeir um að deila titlinum, nokkuð sem hafði aldrei gerst áður og þurfti reglubreytingu til að samþykkja. Hvorugur þeirra fann taktinn almennilega í dag og eru þeir sem stendur með níu vinninga í 10.-20. sæti. Rétti úr kútnum eftir slæma byrjun Vignir Vatnar Stefánsson er eini Íslendingurinn á mótinu og hann er í 35.-60. sæti með 8 vinninga. Eftir að hafa byrjað á tveimur töpum í dag tapaði hann ekki fleiri leikjum. Hann gerði til að mynda jafntefli við Lê Quang Liêm frá Víetnam sem er 27. sterkasti hraðskákmaður heims með 2695 Elo-stig. Keppni hefst aftur klukkan 11:00 á íslenskum tíma á morgun. Einungis fjórir efstu skákmennirnir komast í útsláttarkeppnina.