Heræfingar Kínverja svar við vopnakaupum Taívana

Helgi Steinar Gunnlaugsson alþjóðastjórnmálafræðingur segir heræfingar Kínverja við Taívan eins konar svar við því að Taívanar keyptu mikið af vopnum af Bandaríkjunum á dögunum. Helgi ræddi aðgerðir Kínverja í návígi Taívans í sjónvarpsfréttum í kvöld. „Heræfingar kínverska hersins við Taívan eru ekki nýjar af nálinni. Þeir hafa á síðustu árum haft sex æfingar og þeir senda í rauninni daglega skip inn í lögsögu Taívana. En ég myndi segja að munurinn núna sé hversu hvöss stjórnvöld í Kína eru samhliða æfingunum.“ Helgi segir kínverska herinn stóran en að hann skorti stríðsreynslu. „Hann hefur ekki tekið þátt í orrustu síðan 1979 og það var bara landamæradeila við Víetnam. Þetta er líka eyja sem er 70% fjalllendi þannig að þó að þeir myndu ráðast inn í eyjuna væri mjög erfitt að halda henni.“