Donald Trump Bandaríkjaforseti segir mikilvægt að annar áfangi vopnahlés á Gaza hefjist sem allra fyrst en að Hamas-samtökin verði að afvopnast áður en það er gert. Trump segir enn fremur að önnur ótilgreind ríki, sem styðja vopnahléssamkomulagið, séu reiðubúin til þess að fara „þangað og útrýma þeim“ ef samtökin afvopnast ekki í bráð. Þetta sagði Trump á blaðamannafundi í kvöld, ásamt Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. Leiðtogarnir funduðu í dag í Mar-a-lago, setri Trumps í Flórída, um næsta áfanga vopnahléssamkomulags Ísraels og Hamas. Áfanginn felur meðal annars í sér að Ísraelar dragi herlið sitt enn frekar frá Gaza og afvopnun Hamas-liða. Hamas lýsti yfir í dag að svo lengi sem hernámið stæði legðu þeir ekki niður vopn sín. Vopnahlé hefur varað á Gaza síðan í október en þykir standa tæpt. Þar ríkir mikil neyð enda misstu nær allir íbúar heimili sín í árásum Ísraela. „Hamas verður gefinn mjög skammur tími til að afvopnast og við skulum sjá hvernig það gengur,“ sagði Trump á blaðamannafundinum. „En ef þeir afvopnast ekki, eins og þeir hafa samþykkt, þá fá þeir að kenna á því og við viljum það ekki.“ Donald Trump sæmdur Ísraelsverðlaunum Donald Trump sagði á blaðamannafundinum að lítill sem enginn munur væri á því sem Bandaríkjamenn sækjast eftir og Ísraelar. Netanjahú kvað við svipaðan hljóm og sagði samstarf síns og Trumps óviðjafnanlegt. Forsteinn ausaði Netanjahú sömuleiðis fögrum orðum. „Ef átta af hverjum tíu forsætisráðherrum hefðu verið í hans stöðu einmitt núna, eða fyrr kannski, væri ekki lengur Ísrael. Ísrael væri ekki til. Ég held að tveir ráðherrar gætu þetta og átta ekki. Það eru ekki góðar líkur. Það þarf mjög sérstakan mann til að fylgja eftir og hjálpa Ísrael í gegnum þessa hræðilegu klemmu,“ sagði Trump. Hólum leiðtoganna lauk þó ekki með þessu. Netanjahú tilkynnti á blaðamannafundinum að Ísraelar ætli að veita Trump Ísraelsverðlaun (e. Israel Prize) fyrir framlög sín í þágu gyðinga. Verðlaunin eru vanalega veitt ísraelskum ríkisborgurum og þykja einn mesti heiður ríkisins. „Trump forseti hefur rofið svo margar hefðir. Það hefur komið fjölda fólks á óvart sem hugsar – kannski hafði hann rétt fyrir sér allan tímann? Svo við ákváðum að rjúfa líka hefð eða skapa jafnvel nýja og það er að veita Ísraelsverðlaunin, sem yfir okkar nærri 80 ára sögu hafa aldrei verið veitt einhverjum sem ekki er frá Ísrael, Trump forseta í ár,“ sagði Netanjahú.