Volodymyr Zelensky segir útilokað að Úkraína hafi betur í innrásarstríðinu án stuðnings Bandaríkjanna. Úkraínuforseti lét þessi orð falla í samtali við Fox-fréttastöðina. „Getum við sigrað án Bandaríkjanna, nei,“ sagði Zelensky. Hann sagðist jafnframt engan veginn geta treyst Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Hann hafi engan áhuga á friði og hefur sagst geta gengið enn lengra í árásum sínum, sagði Zelensky. „Hann hefur engan áhuga á velgengni Úkraínu,“ sagði forsetinn og vísaði þar til orða sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði eftir Pútín í gær. „Þetta kann að hljóma undarlega, en Pútín óskar Úkraínu velfarnaðar,“ sagði Trump á blaðamannafundi þeirra Zelensky eftir að þeir ræddu tuttugu liða friðaráætlun fyrir Úkraínu. Hann lýsti einnig göfuglyndi Rússlandsforseta sem hefði boðið Úkraínu raforku og aðrar vörur gegn vægu verði.