Bandarísk yfirvöld hafa lagt blessun sína yfir sölu Boeing eftirlitsflugvéla til Danmerkur, þrátt fyrir þá spennu sem ríkir milli landanna vegna vilja Bandaríkjaforseta að yfirtaka Grænland. Í frétt AFP segir að utanríkisráðuneytið bandaríska hafi samþykkt sölu á allt að þremur eftirlitsvélum að andvirði 1,8 milljarða dala. Ráðuneytið segir í tilkynningu til þingsins að viðskiptin séu í anda utanríkisstefnu Bandaríkjanna og öryggismarkmiða þeirra og styrki varnir bandalagsríkis innan NATÓ. Þannig verði pólitískur stöðugleiki og efnahagslegur árangur Evrópu tryggður. Fyrir rúmri viku samþykkti utanríkisráðuneytið nærri milljarðs dala sölu flugskeyta fyrir orrustuþotur til Danmerkur. Bandaríkjastjórn hefur lengi þrýst á önnur ríki Atlantshafsbandalagsins að verja meira fé til varnarmála. Trump vill draga úr ítökum Bandaríkjanna í vörnum Evrópu þrátt fyrir að innrásarstríð Rússa í Úkraínu geisi enn. Dönum og öðrum Evrópumönnum er brugðið vegna ásælni forsetans í Grænland, sem segir það í öryggisskyni og hefur ekki útilokað að beita valdi til að ná landinu. Yfirlýsingar Jeffs Landry, ríkisstjóra Louisiana og nýskipaðs erindreka Bandaríkjanna fyrir Grænland, um að það yrði senn sölsað undir Bandaríkin hafa ekki bætt úr skák.