Akram-feðgar taldir einir að verki við fjöldamorðið á Bondi-ströndinni

Talið er að Akram-feðgarnir, Sajid og Naveed, hafi verið einir að verki þegar þeir myrtu fimmtán manns og særðu tugi á ljósahátíð gyðinga á Bondi-ströndinni við Sydney í Ástralíu 14. desember. Lögregluyfirvöld greina frá þessu og segja feðgana ekki heldur virðast hafa tilheyrt nokkrum hryðjuverkahópi. Dvöl þeirra í Davao á Filippseyjum vikurnar fyrir árásina, þar sem uppreisnarsveitir íslamista hafa farið mikinn, kyntu undir grunsemdir um tengsl við hryðjuverkahópa. Ríkislögreglustjórinn Krissy Barrett segir frumniðurstöðu rannsóknar ekki benda til að Akram-feðgar hafi stundað heræfingar á Filippseyjum né að aðrir hafi stjórnað athæfi feðganna. Áfram verði grennslast fyrir um ástæðu ferðar þeirra til Davao, ólíklegt þykir að þeir hafi aðeins verið þar á ferðalagi. Frekari rannsókn sé líkleg til að varpa ljósi á aðra þætti málsins og skýra hvað knúði þá áfram. Lögregla telur feðgana hafa skipulagt atlöguna í hörgul mánuðum saman og hefur birt ljósmyndir af þeim æfa meðferð haglabyssa í óbyggðum. Akram-feðgar tóku einnig upp myndskeið í október þar sem þeir fordæma gyðinga og síonisma harkalega með fána hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki í bakgrunni. Lögreglumenn skutu föðurinn Sajid Akram til bana og særðu soninn Naveed. Sajid var fimmtugur af indverskum uppruna og fluttist til Ástralíu 1998. Sonurinn hefur verið ákærður í 59 liðum, meðal annars fyrir hryðjuverk og fimmtán morð. Forsætisráðherrann Anthony Albanese hefur fyrirskipað rannsókn á hvort eitthvað fór úrskeiðis hjá lögreglu og leyniþjónustu í aðdraganda árásarinnar. Einnar mínútu hlé og þögn hefur verið boðað á öllum hátíðahöldum í Sydney klukkan ellefu á gamlárskvöld til að minnast þeirra sem féllu fyrir hendi Akram-feðganna. Einnig verður þungvopnuð lögregla við eftirlit að sögn Chris Minns, forsætisráðherra Nýju Suður-Wales.