Nýjar gervihnattamyndir Kóperníkusar, loftslagsstofnunar Evrópu, sýna meðal annars hve Breiðamerkurjökull hefur hopað mikið á skömmum tíma. Stofnunin fylgist grannt með þróun jökla á Íslandi og annars staðar um heiminn. Jöklar á Íslandi hafa hopað og rýrnað hratt og stöðugt undanfarna áratugi. Það segja sérfræðingar Kóperníkusar endurpegla hækkun lofthita og breytt mynstur í úrkomu sem tengist loftslagsbreytingum. Náið sé fylgst með þróuninni með gervihnattamælingum. Mælingar vísindamanna sem birtu niðurstöður sínar í vísindaritinu Nature benda til að jöklar á Íslandi hafi rýrnað um 8,3 milljarða tonna frá aldamótum til 2023. Gervihnattamynd úr Copernicus Sentinel-2 gervitunglinu, tekin 11. nóvember 2025, sýnir glöggt hvernig jökulsporðurinn frá skriðjöklinum Breiðamerkurjökli sem gengur niður úr Vatnajökli að Jökulsárlóni hefur hopað frá árinu 1990. Á seinasta aldarfjórðungi hefur Breiðamerkurjökull dregist saman um sex kílómetra, samkvæmt því sem segir á vef Kóperníkusar . Stofnunin segir íslensku jöklana þá nafntogustu í Evrópu og að þeir gegni mikilvægu hlutverki í stjórnun ferskvatnsauðlinda og gagnvart stöðu sjávar. Breiðamerkurjökull náði næstum í sjó fram undir lok 19. aldar og framgangur hans lagði bæinn Breiðamörk í eyði skömmu fyrir aldamótin 1700. Jökulsárlón tók að myndast þegar Breiðamerkurjökull hóf að dragast saman.