Kínverski herinn skaut minnst tíu eldflaugum á loft í morgun frá Pingtan, kínverskri eyju skammt frá Taívan. Fréttaritari AFP varð vitni að tilrauninni og segir fjölda ferðamanna hafa tekið myndir af flaugunum þjóta frá skotpöllum sínum. Skömmu síðar birtist yfirlýsing frá hernum sem sagði vel hafa tekist til við æfingaskot með langdrægum flaugum norðan við Taívan. Síðari dagur umfangmikillar heræfingar Kínverja er runninn upp þar sem meðal annars hefur verið líkt eftir herkví um hafnir Taívan og atlögum að skotmörkum á hafinu umhverfis. Kínverjar segja æfinguna lögmæta og nauðsynlega til að vernda fullveldi og einingu innan Kína. Stjórnvöld í Taívan hafa andæft athæfinu harðlega sem alvarlegri ógn við öryggi sjálfsstjórnarríkisins og broti á alþjóðalögum. Herinn kveðst vera á hæsta viðbúnaðarstigi til að verja eyjuna. Utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, segir öllum sjálfstæðistilburðum Taívan verða mætt af einurð og eins vopnasölu Bandaríkjamanna þangað. Mjög stirt hefur einnig verið milli Kínverja og Japana eftir að forsætisráðherrann Sanae Takaichi sagði í þingræðu að Japansher gripi til vopna yrði lagt til atlögu að Taívan. Wang Yi bætti við að allar tilraunir til að hindra sameiningu Taívan við Kína enduðu með ósköpum. Lai Ching-te, forseti Taívan, hét í samfélagsmiðlafærslu í gær að ekkert yrði gert til að kveikja frekari deilur við Kínverja eða stigmagna átök við þá.