Óttarr Proppé, tónlistarmaður og fyrrverandi ráðherra, segist reglulega fá nóg af sjálfum sér. „Það hefur einhvern veginn þróast þannig að maður hefur lent í því að vekja á sér athygli – sem er smá öfugmæli því í grunninn er ég mjög feiminn maður og prívat,“ segir hann við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. Líklegast hafi hann tekist á við feimnina með því „að vera með alls konar sprellilæti. Það kemur alveg reglulega fyrir að mér finnst alveg nóg fjallað um mig og að það megi kannski bara tala um músíkina eða vinnuna sem ég er að gera. Ég er með létt ofnæmi stundum fyrir sjálfum mér.“ Þolir ekki að hampa sjálfum sér Óttarr segist ekki vera neinn vitleysingur, hann átti sig á því að fólk viti af sér en hann sé alinn upp af íslenskum, lútherskum sið þar sem honum var kennt að hampa sjálfum sér ekki um of eða láta mikið á sér bera. „Ég þoli það sjálfur ekki í fari annarra þegar mér finnst menn vera komnir út í sjálfshól og vera sjálfsmiðaðir.“ Hann segist því vera mjög meðvitaður þegar hann sjálfur dettur í þann pakka. „Nú er ég akkúrat orðinn það sem ég þoli ekki hjá hinum,“ hugsi hann þá. „En á sama tíma var maður unglingur í pönkinu hér á Íslandi og ég held að stór hluti af lífinu hafi verið barátta við leiðindi og meðvirkni með því að vera með læti – sem í eðli sínu er ekkert sérstaklega kurteist.“ Hann segist því reyna að finna jafnvægið og sé orðinn sæmilega sáttur í eigin skinni. „En ég er ekkert búinn, maður er alltaf að bíða eftir því hvað maður verður og hvað gerist.“ Hefur það fyrir mottó að reyna allt Óttarr hefur mjög einkennandi söngrödd og segir hana vera eina af tilviljunum lífsins. Hann hefur reynt að temja sér hugrekki í gegnum tíðina og segir það að hluta til komið vegna þess að á uppvaxtarárunum flakkaði fjölskylda hans á milli Íslands og Bandaríkjanna þegar foreldrar hans voru í námi. Hann segist hafa verið heppinn með yndislega fjölskyldu og átt góða vini en það hafi verið flókið að vera sífellt tekinn úr aðstæðum þar sem honum leið vel og þurfa svo að læra að synda í nýrri laug. „Þar held ég að það hafi haft þau áhrif að mitt mottó er að reyna allt. Sama hvað það er mikil vitleysa.“ Þess vegna hafi Sigurjón Kjartansson, „þessi furðufugl frá Ísafirði“, náð að plata hann til þess að syngja þegar þeir voru saman á hljómsveitaræfingu. Hann hafði alltaf dreymt um tónlist en óraði aldrei fyrir því að fara fyrir bandinu. „Hann plataði mig til að syngja og náttúrulega á æfingum með hljómsveit sem var að hækka eins mikið í öllum gíturum og hægt var og búa til mikinn hávaða. Þá fann maður bara gargið og svo hefur maður hægt og rólega þróað það. Gargarinn er farinn að eiga rödd líka sem getur jafnvel sungið mýkri músík.“ „Af hverju þá ekki að taka að sér eitthvað erfitt?“ Óttarr segist þó aldrei vera jafn hugrakkur og hann vilji vera en hann var þó nógu djarfur til að takast á við heilbrigðisráðuneytið þegar hann var í ríkisstjórn. „Ég leit nú á það þá að þetta var alveg fáránlega einstakt tækifæri, í raun og veru.“ „Við vorum þarna í nýjum flokki, Bjartri framtíð, sem hafði risið upp fyrir kosningarnar 2013. Svo verður þarna forystuvandi og ég einhvern veginn dett óvart inn í að taka að mér forystuhlutverkið. Í fyrstu skoðunarkönnuninni eftir það vorum við með 1,9%, vorum gjörsamlega kolfallin og ekki til,“ rifjar hann upp. „En okkur tókst að lifa af kosningarnar og lenda í því að vera í þeirri stöðu að í raun og veru var ekki hægt að mynda stjórn án þessara fjögurra þingmanna sem við höfðum. Ég er einhver furðulegur, hálfsíðhærður, sköllóttur pönkari úr Hafnarfirði.“ Hann segist ekki hafa staðið í þessu til að geta átt mynd af sér við ríkisstjórnarborðið heldur vegna þess að hann hafi viljað gera gagn. „Af hverju þá ekki að taka að sér eitthvað erfitt? Ég sé ekki eftir því, það var rosalega þroskandi og gott ár sem ég átti í heilbrigðisráðuneytinu sem var frekar stuttur tími á endanum.“ Hann telur það að sama skapi hafa verið ágætt fyrir kerfið að fá einhvern „rugludall inn sem kunni ekki alveg á hvernig hlutirnir voru gerðir.“ Sjokk fyrir alla þegar þau duttu inn í ráðhúsið Sem pólitíkus hefur Óttarr upplifað að fólk sýndi sér „meiri mildi heldur en væri eðlilegt.“ Það hafi komið honum á óvart í ráðuneytinu hvað fólk hafi verið tilbúið til að hlusta á sig. Honum hafi því tekist að mynda ágætissambönd við fólk í öllum flokkum og víðar. „En það var kannski að einhverju leyti að maður lærði þetta þegar ég dett inn í ráðhúsið með Jóni Gnarr 2010 sem var mikið sjokk fyrir alla og pólitíska kerfið en sérstaklega líka fyrir okkur sem lentum í því.“ Þá hafi þau öll verið samtaka í því að taka ábyrgð. Eftir að hafa sagt skilið við pólitíkina snéri Óttarr sér aftur að bóksölu þar sem hann hafði starfað í rúm 20 ár. „Þetta var allt mjög hratt. Við vorum rétt að venjast því að vera í ríkisstjórn þegar það verða mál þar sem flokkurinn ákveður að segja sig frá ríkisstjórn og þá fer allt í hönk og það er beint farið í kosningar.“ Allt í einu hafi hann verið dottinn út og síminn hættur að hringja og hann hafi ekki lengur þurft að bera ábyrgð á neinu. „Ég var svo heppinn að mér bauðst að fara og taka við Bóksölu stúdenta uppi í Háskóla. Þá fór ég aftur í bransa sem maður þekkti. Svo er ég rétt dottinn inn í það þegar covid kemur ofan á okkur. Það var mjög leiðinlegur tími í þessum bransa.“ Hann hafi sinnt því starfi í fjögur ár og áttað sig á því að eftir 23 jólavertíðir sem bóksali var hann ekki alveg jafn spenntur fyrir nýjasta krimmanum og fannst vera komið gott. Gefandi að sjá augljósan ávinning starfsins Þá hafi Ásmundur Einar Daðason, þáverandi mennta- og barnamálaráðherra sem Óttarr þekkti frá þingstörfum, beðið hann að taka að sér málefni barna á flótta. Hann hafði nefnilega starfað að málefnum útlendinga þegar hann var í stjórnarandstöðu. Árið 2022 réðust Rússar inn í Úkraínu og ljóst var að mikil fjölgun yrði á fólki á flótta. „Þá hnippir hann í mig til að fá mig í þessi verkefni, að vinna að því að liðka fyrir og hjálpa til við móttöku barna á flótta. Það var rosalegt verkefni þegar mest var,“ segir Óttarr en hann hafi sagt hiklaust já eins og svo oft áður þegar hann er beðinn um að taka að sér krefjandi verkefni. „Maður lokar bara augunum og segir já.“ Hann segir starfið mjög gefandi og honum þykir gott að sjá mjög glöggt að allt sem ávinnst sé til gagns. „Það hefur kannski líka áhrif að ég er barnlaus og kannski í einhverjum tengslum við barnið í sjálfum mér, þetta týnda barn sem var hoppandi á milli menningarheima og ég eyddi svo löngum tíma í að flýja til þess að verða fullorðinn.“ Nú fjórum árum seinna er hann enn í þessum verkefnum og líður vel. Reynir að vera friðsæl sál Óttarr segist geta orðið reiður en hann hefur unnið mikið í sjálfum sér og reynir að skilja sjálfan sig og veikleika sína og vinna í þeim. „Ég trúi því statt og stöðugt að reiði sé eyðileggjandi afl og að reiði sé ekki til góðs og að það sé ekki góð aðferðafræði til þess að eiga samskipti og vera í samfélagi.“ „Þannig að ég reyni að vinna í reiðinni og vera friðsæl sál.“ Hann segist aldrei hafa hitt manneskju sem sé svo óforbetranleg að ekki sé hægt að eiga í samskiptum við hana. „Ég er alltaf að reyna að vinna með mig.“ Óttar Proppé hefur tileinkað sér hugrekki í tímans rás og stokkið á ýmis tækifæri, þannig endaði hann sem ráðherra. Hann lýsir sér sem rugludalli með sítt hár, þrátt fyrir að vera sköllóttur, og segir að sér hafi alltaf verið tekið vel. Rætt var við Óttar Proppé í Segðu mér á Rás 1. Þátturinn er í spilaranum hér fyrir ofan.