70% þjóðarinnar eru hlynnt því að samfélagsmiðlar verði bannaðir börnum yngri en 16 ára á Íslandi. 12% eru andvíg samfélagsmiðlabanni og 18% eru hvorki með eða á móti slíkum hugmyndum. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar Prósents. Konur eru hlynntari því að samfélagsmiðlar verði bannaðir börnum. Það vilja 74% kvenna á móti 67% karla. 9% kvenna eru andvígar banni en 14% karla. Bann við samfélagsmiðlanotkun barna undir 16 ára aldri tók nýverið gildi í Ástralíu. Guðmundur Ingi Kristinsson, sem nú er í leyfi sem mennta- og barnamálaráðherra, lagði í síðasta mánuði fram frumvarp um bann við símanotkun barna í grunnskólum. Hann hefur sagt símanotkun barna vandamál og að þau eigi of greiða leið inn á samfélagsmiðla. Fólk sem ekki er komið á miðjan aldur hlynntast banni Samfélagsmiðlabann barna nýtur minnst stuðnings meðal ungs fólks. 60% svarenda á aldrinum 18 til 24 ára segjast hlynnt banni. Það er líka sá hópur þar sem bannið mætir mestri mótstöðu, 22% svarenda í hópnum eru andvígir. Stuðningur við bann vex þó ekki línulega með hækkandi aldri svarenda. Fólk á aldrinum 25-44 er hlynntast banni. Þrír af hverjum fjórum á þessu aldursbili eru hlynntir banni. Stuðningurinn er minni hjá þeim sem eldri eru en þó ekki eins lítill og hjá yngsta aldurshópnum. Könnun Prósents var framkvæmd dagana 12. til 19. desember. Gögnum var safnað hjá könnunarhóp Prósents. 1.950 voru í úrtaki og svarhlutfall var 50%.