Banni við einnota plastglösum frestað um fjögur ár

Bann við notkun á einnota plastglösum í Frakklandi, sem átti að taka gildi um áramótin, hefur verið frestað um fjögur ár. Frönsk stjórnvöld tilkynntu þetta í morgun. Í tilkynningunni, sem kemur frá ráðuneyti vistfræðilegra umbreytinga, kemur fram að mat sem gert var á þessu ári leiði í ljós að erfitt sé að hætta notkun plasts í þessum bollum. Með öðrum orðum, það hefur gengið illa að finna eitthvað í staðinn fyrir plastið. Frakkar hafa smátt og smátt komið á banni við einnota plastvörum vegna umhverfisáhrifa, en plastið hefur einkum slæm áhrif á vatnakerfi, til dæmis úthöf og ár. Til að mynda bönnuðu þeir árið 2022 að selja yfir 30 tegundir af ávöxtum og grænmeti í plasti ef pakkningin er minni en eitt og hálft kíló. Reyndar er talið að fimmtungur heildsala brjóti þetta bann. Þá settu þeir árið 2020 það markmið að banna allt einnota plast fyrir árið 2040. Stjórnvöld ætla að taka stöðuna aftur árið 2028 til að kanna hvernig gengur að finna annan valkost við einnota plastglös.