Rétt að allir séu í viðbragðsstöðu vegna Reykjanesskaga

Það er möguleiki fyrir hendi að ekki verði fleiri eldgos á Sundhnúksgígaröðinni að mati Freysteins Sigmundssonar, jarðeðlisfræðings. Í hans huga er atburðarásinni á Reykjanesskaga þó ekki lokið fyrr en þrýstingur hættir að aukast. „Þegar að hægir á atburðarásinni þá verður meiri óvissa um framhald og það er eðlilegt. En það er mikilvægt að hafa í huga að þrýstingur vex undir Svartsengi. Landið hefur risið þar um að jafnaði um 1 mm á dag síðustu þrjá mánuði,“ segir Freysteinn. Hann segir það heilmikið og að þrýstingur haldi áfram að vaxa. „Allar aðstæður eru fyrir hendi að þarna geti orðið atburður með mjög stuttum fyrirvara og þess vegna er fylgst mjög vel með því og rétt að allir séu í viðbragðsstöðu.“ Gosið í apríl áhugavert fyrir jarðfræðinga Náttúruöflin voru blíð á árinu sem er að líða að mati Freysteins. Fyrra eldgosið af tveimur sem kom upp á Reykjanesskaga var mjög áhugavert fyrir jarð- og jarðeðlisfræðinga að mati Freysteins. Gosið hófst að morgni 1. apríl og gosvirknin datt alveg niður síðar sama dag. Gosinu var formlega lýst lokið 3. apríl. „Það var mjög áhugavert fyrir okkur sem erum að reyna að skilja hvernig jarðskorpa Íslands myndast því þá varð til þessi stóri kvikugangur aftur. Kvikugangurinn stal eiginlega eldgosinu. Það koðnaði niður af því að kvikan fann sér leið neðanjarðar.“ Fleiri eldstöðvar tilbúnar Að mati Freysteins eru meiri líkur en minni á að eldgos verði á næsta ári. Hvort sem það verði á Reykjanesskaga eða í einum af þeim mörgu eldstöðum sem komnar eru á tíma og þar sem þrýstingur hefur aukist á síðustu misserum. Þar má nefna Bárðarbungu, Öskju, Heklu og Kötlu. „Við þurfum samt að átta okkur á því að getan til að fylgjast með er alltaf að aukast,“ segir Freysteinn. Mælitæki verða sífellt betri til að nema jarðskjálfta og jarðskorpuhreyfingar. „Við þurfum líka að hafa það í huga að mikið af þessum umbrotum enda ekki með eldgosi.“ Allar aðstæður eru fyrir hendi til að eldgos geti hafist á Reykjanesskaga með skömmum fyrirvara að sögn jarðeðlisfræðings. Hann segir það einnig mögulegt að hrinu eldgosa á skaganum sé lokið. Freysteinn Sigmundsson var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Viðtal við hann má finna í spilaranum hér að ofan.