Dmitry Peskov talsmaður rússneskra stjórnvalda telur ekki sérstaka ástæðu til að leggja fram sannanir fyrir því að Úkraínumenn hafi skotið drónum að húsi Vladimírs Pútín. Úkraínumenn segja slíka árás aldrei hafa átt sér stað. Rússnesk stjórnvöld lýstu því yfir í gær að Úkraínumenn hefðu skotið 91 langdrægum dróna að einu af húsum Pútíns í Novgorod-héraði. Peskov var spurður nánar út í þessar fullyrðingar og hvaða sannanir væru fyrir því. „Ég tel að það þurfi ekki sönnunargögn ef svo umfangsmikil drónaárás er gerð. Vegna vel samhæfðs loftvarnarkerfis voru allir drónarnir skotnir niður,“ sagði Peskov. Hann boðaði jafnframt herta afstöðu Rússa í viðræðum um stríðslok í Úkraínu vegna þessarar árásar. Andriy Sybiga utanríkisráðherra Úkraínu sagði í færslu á X að Rússar hefðu ekki gefið nein haldbær sönnunargögn fyrir því að árásin hafi verið gerð. „Og þeir gera það ekki. Því þær eru ekki til staðar. Engin slík árás átti sér stað,“ sagði Sybiga. Evrópskir leiðtogar sitja nú á fundi til að ræða stríðið í Úkraínu. Talsmaður stjórnvalda í Póllandi tilkynnti þetta í morgun. Frekari upplýsingar liggja ekki fyrir um þennan fund.