„Verðum að halda áfram að lifa og njóta lífsins“

Fjöldi fólks fagnar áramótum í Grindavík - margir í fyrsta sinn í tvö ár. Þrýstingur rís enn undir Svartsengi. Slökkviliðsstjóri segir yfirvöld í viðbragðsstöðu að vanda en að líf sé að færast aftur í Grindavík. Björgunarsveitin Þorbjörn selur flugelda í bænum í fyrsta sinn frá árinu 2022. Einar Sveinn Jónsson slökkviliðsstjóri segir að brenna sé ekki á dagskrá í bænum í ár en að dvalið verði í um 110-120 húsum yfir áramótin. „Það er ánægjulegt að sjá að það er að færast meira og meira líf í bæinn,“ segir Einar Sveinn. Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur sagði í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að þrýstingur vaxi undir Svartsengi og að atburður geti átt sér stað með mjög stuttum fyrirvara. „Landið hefur risið þar um að jafnaði um einn millimeter á dag síðustu þrjá mánuði. Það er enn þá bara heilmikið. Þess vegna er fylgst mjög vel með því og rétt að allir séu í viðbragðsstöðu,“ sagði Freysteinn. Einar segir yfirvöld í viðbragðstöðu eins og alla aðra daga sem muni bregðast skjótt við ef atburðarás fari af stað. Íbúar í bænum séu meðvitaðir um ástandið enda orðnir ýmsu vanir eftir undanfarin ár. Það sé ljóst að marga Grindvíkinga sé farið að þyrsta í að fagna heima hjá sér. „Ég held að það geti nú allir verið sammála um að það væri nú gott ef þessum atburðum færi að ljúka og fólk geti farið að horfa fram á veginn. Menn eru orðnir langþreyttir á þessu ástandi, en það þýðir lítið að lifa í ótta og við verðum að halda áfram að lifa og njóta lífsins.“