Setur Gísla og Ómar meðal tíu bestu handboltamanna heims

Bent Nyegaard hefur um árabil verið aðal handboltaspekúlant Danmerkur. Hann var meðal annars sérfræðilýsandi á öllum landsleikjum karla og kvenna í handbolta í danska sjónvarpinu í mörg ár eða til og með Ólympíuleikanna í París árið 2024. Nyegaard þjálfaði líka lengi lið á borð við Odense, GOG, Ribe og Team Tvis Holstebro með góðum árangri, en þar á undan þjálfaði hann ÍR og Fram á Íslandi. TV2 í Danmörku fékk Nyegaard til að velja tíu bestu handboltamenn heimsins um þessar mundir. Þar setur hann fjóra Dani, tvo Íslendinga, tvo Frakka, einn Svía og einn Spánverja. Fimm af þessum tíu eiga það sammerkt að leika með Magdeburg í Þýskalandi.