Sjálfstæðisflokkurinn í klemmu milli Miðflokksins og Viðreisnar

Samfylkingin mælist enn stærst í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, með um 31 prósent fylgi og mælist stærst í öllum kjördæmum. Fylgi hinna stjórnarflokkanna hefur hins vegar dalað töluvert frá kosningum. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er 47 prósent. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði segir fylgisaukningu Miðflokksins vekja mesta athygli. Hann nálgast 22 prósenta fylgi á meðan Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað í sautján prósentum. „Samfylkingin hefur bætt við sig ríflega tíu prósentum og Miðflokkurinn hefur bætt við sig tæpum tíu prósentum. Flokkur fólksins hefur tapað um það bil átta prósentum. Það sem vekur kannski mesta athygli núna er fylgisaukning Miðflokksins undanfarið og núna hefur hann í tvo mánuði verið að mælast stærri heldur en Sjálfstæðisflokkurinn,“ segir Ólafur. Ríkisstjórnin haldi fylgi sínu tiltölulega vel Viðreisn tapar mestu fylgi milli kannana og mælist með tæplega ellefu prósenta fylgi. Ólafur segir lítið af fylgi Viðreisnar fara til Miðflokksins. Hins vegar hafi töluvert af fylgi Flokks fólksins farið til Miðflokksins ásamt fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem hann segir að hafi klemmst milli Miðflokksins og Viðreisnar. Ríkisstjórnin hefur haldið fylgi sínu tiltölulega vel þrátt fyrir að stuðningur við hana hafi minnkað. Það mælist 55 prósent. „Stuðningur við ríkisstjórnina er svona aðeins að minnka en hún hefur haldið stuðningi furðuvel allt þetta fyrsta ár því að það er nú töluverð regla bæði á Íslandi eftir hrun og í nágrannalöndunum að ríkisstjórnir tapa stuðningi tiltölulega hratt eftir að þær komast til valda,“ segir Ólafur.