Stormasamt ár að baki og blikur á lofti fyrir 2026

Þegar leiðtogar Evrópusambandsríkjanna komu saman á síðasta fundi þessa árs var talað um að senda ótvíræð skilaboð: Að Evrópusambandið myndi halda áfram að styðja Úkraínumenn í varnarbaráttu þeirra gegn Rússum. Skilaboðin voru vissulega send; það var ákveðið að setja saman lán upp á níutíu milljarða evra til að efna loforð leiðtogaráðsins, og uppfylla að hluta til fjárþörf Úkraínu næstu árin. En skilaboðin voru hins vegar ekki eins ótvíræð og margir vildu - niðurstaðan fékkst aðeins með því skilyrði að þrjú ríki höfnuðu því að vera með. Þannig er komið fyrir samstöðunni innan Evrópusambandsins, allavega hvað varðar Úkraínu, nú þegar næstum fjögur ár eru liðin frá því Rússar hófu allsherjarinnrás sína og Evrópusambandsríkin stóðu (og standa enn) frammi fyrir stærstu ógn að öryggi álfunnar síðan í seinni heimsstyrjöld. En það er sótt að Evrópu úr öðrum áttum - á aðra vegu - og einnig innanfrá. Það má kannski segja að Evrópusambandið hafi ekki verið byggt fyrir tíma sem þessa; samkomulag, málamiðlanir og samstaða hafa verið þær forsendur sem ráðið hafa mestu í þessu evrópska verkefni, eins og Evrópusambandið er stundum kallað, sem hófst um miðja síðustu öld sem tilraun til að binda áður stríðandi þjóðir svo þétt saman að ófriður milli þeirra yrði óhugsandi. Hugmyndin um frjáls viðskipti og virðingu fyrir reglunum sem binda alþjóðakerfið saman, hefur verið forsenda nánast alls þess sem Evrópusambandið hefur staðið fyrir. Þetta er líka ástæðan fyrir því að sambandið hefur átt í erfiðleikum með að fóta sig í þeirri breyttu heimsmynd og heimsvaldapólitík sem hefur verið að mótast á undanförnum árum og einkennst hefur af verndarstefnu stórvelda á borð við Bandaríkin og Kína, aukinni hörku og minni virðingu fyrir regluverkinu sem bundið hefur alþjóðakerfið saman. Ein afleiðingin er aukin áhersla Evrópusambandsins á aðgerðir til að vernda efnahag aðildarríkjanna; nokkuð sem Ísland og Noregur hafa fengið að finna fyrir, og reyndar má gera ráð fyrir að það muni áfram reyna á innviði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem við reiðum okkur á. Það bætir svo ekki úr skák að Bandaríkin, eitt helsta bandalagsríki Evrópu, sem staðið hafa vörð um öryggi álfunnar síðan um miðja síðustu öld, eru að snúa sér að öðru - og ekki bara það; núverandi stjórnvöld í Washington líta Evrópusambandið hornauga og virðast tilbúin að gera sitt til að rjúfa samstöðu aðildarríkjanna, veikja sambandið og ryðja úr vegi því regluverki sem orðið hefur til á undanförnum árum og áratugum. En ógnin kemur líka innanfrá; Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur talaði um þetta eftir síðasta leiðtogafund; það væri sífellt erfiðara að ná samstöðu. Það er engin furða þegar fylgi við þjóðernissinnaða flokka til hægri hefur verið að aukast í aðildarríkjunum; nú eru flokkar af þessu tagi ýmist ráðandi eða hluti af ríkisstjórn í um tíu ríkjum af tuttugu og sjö, og þeir eru vaxandi afl í stjórnmálum nokkurra af stærstu ríkjum Evrópu, til dæmis Þýskalandi og Frakklandi. Styrkur þessara flokka á Evrópuþinginu jókst líka talsvert eftir kosningarnar í fyrrasumar. Það hefur til dæmis þýtt að hófsamir miðjuflokkar á þinginu hafa þurft að leita eftir stuðningi langt út á hægri kantinn til að koma umdeildum málum í gegn; stuðningi sem var í mörgum tilfellum auðfenginn, ekki síst til að brjóta niður langvarandi eldveggi og auka lögmæti flokka sem eitt sinn voru á jaðrinum. Það er engin tilviljun að flokkahóparnir lengst til hægri á Evrópuþinginu heita annars vegar Evrópa sjálfstæðra þjóða, og hins vegar Föðurlandsvinir fyrir Evrópu; það sem sameinar þá er hugmyndin um að Evrópusambandið í núverandi mynd sé einhvers konar ógn við fullveldi og sjálfstæði einstakra aðildarríkja. Uppgangur þeirra gæti þannig falið í sér tilvistarlega ógn; ætli ríkin tuttugu og sjö sér að halda áfram að nýta samstöðuna og stofnanir Evrópusambandsins til að halda sjó í heimsvaldapólitíkinni, þá þurfa þau sterkt framkvæmdavald hér í Brussel. Reyndar sýna skoðanakannanir í aðildarríkjunum að almenningur styður það, en niðurstaðan af síðasta leiðtogafundi gefur til kynna að slíkt vald, í umboði allra aðildarríkjanna, sé ekkert endilega í boði mikið lengur. En tuttugu og fjögur ríki náðu hins vegar að vera samstíga um niðurstöðuna hvað varðaði Úkraínu - sem kannski gefur vísbendingu um hvernig Evrópusambandið gæti þróast á komandi árum. Heimsmálin - og málefni Evrópusambandsins - verða rædd í þættinum Árið var, á Rás eitt, kl. 16 á gamlársdag.