Lestarferðum um Ermarsundsgöngin aflýst vegna rafmagnsbilunar

Eurostar, sem sér um lestarferðir milli Bretlands og meginlands Evrópu, hefur aflýst öllum ferðum sínum í dag vegna rafmagnstruflana í Ermarsundsgöngum. Þetta á til dæmis við um lestir milli Lundúna og Parísar. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að fjölda lestarferða hafi seinkað eða verið aflýst vegna vandamála með aðalrafstöðina í göngunum, sem hafði leitt af sér bilun í lest frá LeShuttle. Farþegum er bent á að mæta ekki á lestarstöðvar nema þeir séu með miða og fylgjast með upplýsingum um sína lest á netinu. Þessi truflun kemur á sérstaklega slæmum tíma þar sem margir eru á faraldsfæti, ýmist að koma heim eftir jólafrí eða að fara í frí yfir áramótin. Þó hefur rekstraraðili ferjunnar milli Dover og Calais tilkynnt að pláss sé fyrir farþega þar. LeShuttle flytur bíla ásamt farþegum þeirra um göngin en Eurostar flytur eingöngu fólk í sínum lestum. Ekkert hefur verið gefið upp um orsök rafmagnsbilunarinnar.