Nú þegar nýja árið gengur í garð fer margur að undirbúa sig fyrir nýtt líf sem inniheldur meiri hreyfingu, hollt mataræði og aðra lífshætti en þá sem við mörg tileinkum okkur yfir aðventuna. Þá er mikilvægt að sýna sér ákveðna mildi og fara varlega inn í breytingarnar og muna að við þurfum ekki að hætta að njóta og hafa það notalegt. Það er auðvitað hollt að stíga upp úr sófanum endrum og eins en það eru þó nokkur notaleg augnablik næstu daga í sjónvarpinu sem sófinn hreinlega kallar á að við njótum. Áramótin eru tímar uppgjörs með ýmsu móti, annálar í fréttum og íþróttum eru fyrirferðarmiklir á dagskránni og listar yfir allt það sem var vinsælast á árinu eru algengir. Íslensk tónlist fær ávallt mikið pláss á Rás 2 og virkir hlustendur eru án vafa með puttann á púlsinum yfir hvað bar helst til tíðinda í tónlistinni á árinu. Sigurður Þorri Gunnarsson ætlar að rifja upp það helsta í þremur örþáttum sem kallast Lög ársins með Sigga Gunnars en þar fer hann yfir vinsælustu innlendu lög Rásar 2 á árinu sem er að líða. Fyrsti þáttur er að kvöldi 30. desember en hægt er að nálgast þættina í Spilaranum hvenær sem hentar. Öll þjóðin situr límd við sófann Síðasti dagur ársins markast svo af föstum liðum. Áður en árið líður undir lok sest vitaskuld öll þjóðin í sófann og horfir saman á sama þáttinn í línulegri dagskrá og er sú hefð varla þekkt annars staðar en hér á landi. Skaupið verður vissulega á sínum stað enda ómissandi endapunktur sjónvarpsársins. Einvala lið leikara og skemmtikrafta rýnir í fréttir, viðburði og uppákomur ársins. Anna Svava Knútsdóttir, Björn Bragi Arnarson, Jón Ragnar Jónsson, Karen Björg Eyfjörð og Ólafur Ásgeirsson eru höfundar Skaupsins að þessu sinni. Til þess að hita upp fyrir Áramótaskaupið er tilvalið að missa alls ekki af Krakkaskaupinu sem er skemmtiþáttur fyrir alla fjölskylduna þar sem unga kynslóðin gerir upp árið. Krakkaskaupið var verðlaunað sérstaklega á Íslensku sjónvarpsverðlaununum í ár sem besta barna- og unglingaefni ársins 2024 og þykir skaup ungmennanna oftar en ekki hitta naglann á höfuðið. Krakkaskaupið er á dagskrá rétt fyrir kvöldmat á gamlárskvöld. Árið byrjar svo vel og okkur vonandi allflestum í hag því fyrsta helgin er skammt fram undan. Annar dagur ársins er föstudagur og þá er um að gera að hækka aðeins í sjónvarpinu og rokka með Óla Palla og íslenska landsliðinu í dægurtónlist. Útvarpsþátturinn Rokkland á Rás 2 undir stjórn Ólafs Páls Gunnarssonar fagnaði 30 árum á þessu ári og gerði það með stórtónleikum í Hofi á Akureyri í nóvember. Þar mátti heyra Sigríði Thorlacius, Magna Ásgeirs, Andreu Gylfa, Unu Torfa, Jónas Sig og fleiri syngja helstu perlur sem ómað hafa í Rokklandi þessi 30 ár, lög flytjenda á borð við The Beatles, Björk, David Bowie, Led Zeppelin, E.L.O, U2, Queen og fleiri. Mikilvægur þáttur í sögu íslenskrar tónlistar Á sunnudagskvöldinu fáum við svo að skyggnast inn í forvitnilega sögu hljóðversins Hljóðrita í Hafnarfirði í heimildaþáttaröðinni Hljóðriti í hálfa öld. Hljóðverið Hljóðriti var stofnað árið 1975 af ungu og metnaðarfullu fólki og varð fljótt að einu áhrifamesta upptökuveri Íslands. Á gullaldarárum sínum átti það stóran þátt í uppsveiflu íslenskrar plötuútgáfu, mótaði nýja kynslóð tónlistarfólks og vakti athygli erlendra aðila. Eftir um árabil í óvissu í upphafi nýrrar aldar hófst nýr kafli þegar nýir rekstraraðilar tóku við og hljóðverið varð að nýju vettvangur fyrir gamla jafnt sem nýja listamenn. Hljóðriti hefur því verið afar mikilvægur þáttur í tónlistarsögu þjóðarinnar síðustu 50 ár. Hátíðadagskrána má svo skoða í heild sinni í Spilara RÚV. Fjölmarga dagskrárliði má til að mynda horfa á þar áður en þeir verða á dagskrá sjónvarps en einnig má finna þar úrval af vönduðu efni af ýmsum toga. Hluta úrvalsins má sjá bregða fyrir í stiklunni hér að neðan. Nýja árið gengur í garð og engin ástæða til annars en að njóta þó að við ætlum mörg að hefja nýtt líf í janúar. Það er margt sem heillar á skjánum næstu daga, eins og Skaupið, ýmsir annálar, Rokkland í Hofi og Hljóðriti í hálfa öld.