Samkeppniseftirlitið hefur beint því til olíufélaganna að lækkun eldsneytisverðs um áramót vegna niðurfellingar olíugjalds skili sér til neytenda til lengri tíma. Grannt verður fylgst með olíufélögunum næstu misseri og gripið inn í skili lækkun sér ekki. „Við munum fylgjast með því hvernig þessu vindur fram og eftir atvikum afla upplýsinga um hvernig verð hefur þróast núna í aðdraganda breytinganna, í framhaldi af þeim og verðum síðan í sambandi bæði við ASÍ, Neytendasamtökin, FÍB og fjármálaráðuneytið um hvernig þessu vindur fram,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Kílómetragjald verður tekið upp um áramót og um leið fellur olíugjald niður, sem verður til þess að dæluverð á olíu og bensíni lækkar. Olíufélögin hafa haldið þétt að sér spilunum um hver lækkunin verður en samkvæmt Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, ætti lækkunin að nema allt að níutíu og fjórum krónum á lítrann. Páll segir Samkeppniseftirlitið hafa beint því til olíufélaganna að nú ríði á að lækkunin komi fram. En hvaða aðgerða getur Samkeppniseftirlitið gripið til ef þeim finnst olíufélögin ekki standa almennilega að verðlækkunum? „Samkeppniseftirlitið er að fylgjast með samkeppni og er í sjálfu sér ekki að reka verðlagseftirlit, en við getum lesið út úr þessu vísbendingar um mögulegar samkeppnishindranir eftir atvikum, hvernig þau bregðast við félögin og síðan getum við verið til ráðgjafar fyrir stjórnvöld, gripið inn í sjálf ef tæki okkar þykja henta, en annars beint til stjórnvalda að grípa til einhverra aðgerða ef þörf er á,“ segir Páll. Ábendingar um að eldsneytisverð hafi verið hækkað Hann segir að Samkeppniseftirlitinu hafi borist ábendingar um að eldsneytisverð hafi verið hækkað undanfarið. „Þá er umhugsunarefni hvort álagning félaganna til lengri tíma sé að hækka, og þá getur verið að lækkun núna um áramótin dugi ekki ein og sér. Það er eitt af því sem við þurfum að skoða.“