Nýtt ár gengur í hönd og það er tækifæri til að líta til komandi tíma sem kaflaskila og breytinga. Sum strengja sér áramótaheit, mörg taka glænýja stefnu í lífinu og kjósa að líta á nýtt ár og komandi tíma sem tóman striga. Einhver vilja þó meina að heimurinn sé sjálfur að teyma okkur og lífið á ákveðna staði, alveg eftir orku alheims og stöðu himintunglanna. Morgunútvarpið á Rás 2 sló á þráðinn til Siggu Klingenberg stjörnuspákonu og þau Atli Fannar Bjarkason og Hafdís Helga Helgadóttir spurðu hvernig árið liti út að hennar mati. Fiskar og meyjur mega gera ráð fyrir ríkidæmi Af þeim merkjum sem hún nefnir eiga hrútar sérlega gott ár fram undan og tvíburar sömuleiðis. „Svo eru fiskar og meyjur að fá mestu peningana.“ Hún segir að árið hafi verið erfitt mörgum þeim sem eru undir of miklu álagi og keyri sig í þrot, en að breytinga sé að vænta í þeim efnum. „Þú berð ábyrgð á lífi þínu“ Veðrið verður gott á nýju ári samkvæmt Siggu og það er bjart fram undan vegna sólskins á himni en líka í sinni. Það þurfi bara að hafa það í huga að leggja sig stundum fram við að finna birtuna. Þú verður að líta upp og sjá þessa paradís í kringum okkur og hvað við getum gert. Þú berð ábyrgð á þínu lífi því þú hefur hið guðlega afl í þér en þú þarft að skipuleggja sjálfan þig eins og fyrirtæki. Fjörugt ár hjá valkyrjum Inga Sæland er í ljónsmerkinu og Sigga segir að það gusti um hana eins og önnur af sömu tegund. Hún getur ekki að því gert, það er eðlið. Það verða sveiflur í kringum hana en ég tel hún komi vel frá þessu ári. En það verða einhver stólaskipti. Aðrar valkyrjur fá líka sína spá frá Siggu. Í kínverskri stjörnuspeki líta málin líka vel út fyrir Þorgerði Katrínu og Kristrúnu Frostadóttur. Þorgerður mín Katrín er svo sæt og flott og allt það. Hún er snákur og ár snáksins var að líða en næsta ár er samt fyrir snákinn. Kristrún Frostadóttir er dreki og hún mun dansa sterkast. Friður fram undan Sigga segir að nú séu kaflaskipti og að það verði meiri friður í heiminum á nýju ári. Það verði þó þvert á vilja sumra þeirra sem sitji við stjórnvölinn í heiminum. Í raun og veru vilja allir þessir stóru galdrakarlar stríð því þar eru peningarnir og þeir geta keypt sér þúsund pulsur. En spennan hjá þessum galdrakörlum sem sjá um byssurnar. Þetta er ekki spennandi lengur. Allt er orðið svo opinbert. Það eru breytingar á öllu á þessu ári. Nordvision í staðinn fyrir Eurovision Nú er ljóst að Ísland verður ekki á meðal þátttökuþjóða í Eurovision og Sigga segir að þrátt fyrir það verði söngvakeppni af einhverju tagi. Það kemur eitthvað Nordovision eða eitthvað svoleiðis. Það er gott ár fram undan hjá valkyrjunum í ríkisstjórn samkvæmt Siggu Klingenberg. Hún boðar töluvert aukinn frið í heiminum og miklar breytingar árið 2026.