„Þetta er eitthvað sem okkur finnst ekki passa fyrir börn“

„Kjarninn í gagnrýninni er bara sá að þetta er auðvitað úrræði sem felur í sér frelsissviptingu. [...] Ef þú ímyndar þér að þetta sé eins og fangelsi þá myndi maður ekki setja fjölskyldur og fanga saman. Manni finnst það ekki passa,“ segir Guðrún Þorleifsdóttir, framkvæmdastjóri gæðasviðs hjá Barna- og fjölskyldustofu. Hún ræðir þarna um nýtt lagafrumvarp dómsmálaráðherra, Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, um brottfararstöð og áhrif þessa úrræðis á börn. Brottfararstöðin á að vera á Suðurnesjum. Þar á að hýsa fólk, meðal annars hælisleitendur, sem vísa á frá Íslandi. Hingað til hafa hælisleitendur sem ekki yfirgefa landið sjálfsviljugir getað átt það á hættu að vera settir í fangelsi tímabundið. Slíkar reynslusögur hafa ítrekað ratað í fjölmiðla. Frumvarpið hefur verið í umsagnarferli hjá Alþingi og hafa borist 30 umsagnir frá ýmsum einstaklingum og stofnunum. Ein af þessum umsögnum er frá Barna-og fjölskyldustofu en hún barst þann 22. desember síðastliðinn . Guðrún Þorleifsdóttir segir að helsta gagnrýni stofnunarinnar á frumvarpið sé að hýsa eigi börn og ótengda fullorðna einstaklinga saman í brottfararstöðinni. Hún kallar eftir sérstakri brottfararstöð fyrir barnafjölskyldur. „Það sem okkur á Barna- og fjölskyldustofu þykir ekki gott er að þarna er hugmyndin að reka einhvers konar úrræði fyrir þennan hóp saman. Það er að segja: Það eru börn og fjölskyldur og svo aðrir sem eru ekki með börn,“ segir Guðrún. Fjallað er um frumvarpið og gagnrýnina á það í fréttaskýringaþættinum Þetta helst í dag. Þáttinn má hlusta á hér: Barna- og fjölskyldustofa gagnrýnir að vista eigi börn og fullorðna útlendinga sem vísa á úr landi saman í brottfararstöð. Frumvarp um brottfararstöðina er nú til meðferðar á Alþingi. Umboðsmaður barna líka gagnrýnin Dómsmálaráðherra mælti fyrir þessu frumvarpi í nóvember en samkvæmt því verður horfið frá því að vista útlendinga sem á vísa frá landinu í fangelsi á grundvelli gæsluvarðshaldsheimilda, eins og það er orðað á heimasíðu stjórnarráðsins. Í kynningunni á frumvarpinu kom fram að Ísland væri eina ríkið á Schengen-svæðinu sem ekki hefði komið sér upp slíkri brottfararstöð. Fjölmargar aðrar stofnanir hafa sent inn umsagnir um frumvarpið. Meðal annars umboðsmaður barna sem er Salvör Nordal. Í umsögn hennar frá 4. desember segir hún að það samræmist ekki réttindum barna og ákvæðum Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna að vista þau á slíkri brottfararstöð. „Að öllu þessu virtu er það mat umboðsmanns barna að ákvæði þessa frumvarps sem kveða á um að börn verði vistuð á brottfararstöð samræmist ekki réttindum barna og ákvæðum Barnasáttmálans.“