Hafnarstræti 75 valin fallegasta nýbygging landsins

Hafnarstræti 75 á Akureyri er fallegasta nýbygging landsins að mati kjósenda í kosningu Arkitektúruppreisnarinnar. Hún hlaut 39,5% atkvæða í kosningunni. Alls kusu 5.755 í kosningu hreyfingarinnar, þar sem valið stóð á milli fimm bygginga. Arkitektúruppreisnin á Íslandi er umræðuvettvangur um framtíð arkitektúrs á Íslandi. Hópurinn rekur uppruna sinn til Svíþjóðar og sambærilegar hreyfingar hafa sprottið upp á hinum Norðurlöndunum. Á Facebook-síðu hópsins segir að Arkitektúruppreisnin sé ópólitísk og að fallegur arkitektúr sé mál allra. Græna vöruskemman við Álfabakka, sem kölluð hefur verið „Græna gímaldið“, var valin ljótasta nýbyggingin. Í öðru sæti í kosningu um fallegustu nýbygginguna var nýr Fjörður í Hafnarfirði. Hann hlaut 19,7% atkvæða. Uppbygging við Fjörð er einhver umfangsmesta framkvæmd í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi. Eyrarvegur 3-5 í nýja miðbænum á Selfossi hreppti þriðja sætið með 16,1% atkvæða. Vissulega nýbyggingar þar á ferð en þær byggja engu að síður á eldri húsum; svonefndu Amtmannshúsi sem stóð við Ingólfsstræti í Reykjavík og Hótel Akureyri sem stóð við Aðalstræti á Akureyri. Næst kom Hverfisgata 100 í Reykjavík með 13,4% atkvæða og í fimmta sæti var Bergstaðastræti 18 í Reykjavík.